Bankastjóri Arion: „Þetta er jákvætt skref“

20.03.2017 - 19:43
Mynd með færslu
 Mynd: Vilhjálmur Þór  -  RÚV
30% hlutur í Arion banka verður nú seldur erlendum fjárfestum og vogunarsjóðum. Þetta er jákvætt skref segir bankastjórinn. Hann bindur vonir við að bankinn verði skráður í Kauphöllina innan skamms. Einn vogunarsjóðanna sem nú eignast hlut í Arion banka var sektarður um brot á bandarískri spillingalöggjöf þegar tveir starfsmenn hans voru staðnir að því að múta hátt settum embættismönnum víðsvegar í Afríku. 

 

Frá hruni hafa verið tveir hluthafar í Arion banka, -það er slitabú Kaupþings og íslenska ríkið. Nú hefst nýr kafli í bankasögunni eftir hrun því hópur fjárfestinga- og vogunarsjóða bæst nú við og eignast tæp 30% í bankanum. Hluthafarnir verða þá sex talsins.

Vogunarsjóðirnir Taconic og Attestor fara með tæplega 10% hlut hvor um sig.
Och-Ziff eignast 6,6% og Goldman Sachs 2,6%.
30% hluturinn var seldur á 48,8 milljarða króna og greitt var fyrir hann með reiðufé sem rennur beint í ríkissjóð til að greiða niður skuldir hans eins og um var samið.
Ríkissjóður fer áfram með 13% hlut í Arion og Kaupþing á nú eftir 57,9% en nýju hluthafarnir eiga forkaupsrétt að tæpum 22% til viðbótar.

 

 

Mynd með færslu
 Mynd: Grafík  -  RÚV

 

„Ég hef nú orðið var við það í gegnum tíðina að það hefur verið vantrú á því að erlendir fjárfestar vildu fjárfesta í íslenskum bönkum eða fyrirtækjum. Nú hefur komið á daginn að svo er. Þetta eru alvöru fjárfestar sem að setja fram mikla fjármuni af því að þeir hafa trú á Íslandi og Arion banka. Þetta er léttir og þetta er það sem að við höfum stefnt að í langan tíma. Við höfum haft óvenjulegt eignarhald og ekki það heppilegasta og  nú er verið að taka stórt skref í átt að því að bankinn fái eðlilegt og gott eignarhald og ég hef ekki væntingar til annars en að nýjir hluthafar muni bara styðja við það.“

Með nýjum hluthöfum komi fram nýjar áherslur en hann eigi ekki von á stórkostlegum breytingum.
 

„Við höfum haft þá trú að það væri æskilegt að eignarhaldið á bankanum væri dreift, það væri bæði innlent og erlent og það er til skoðunar að skrá bankann í Kauphöll og það finnst okkur áhugaverður valkostur og ég held að það muni skýrast á næstu vikum og mánuðum. “

Ekki fæst upp gefið hverjir standa að baki vogunarsjóðunum sem keyptu hlutinn en vitað er að að þeim standa lífeyrissjóðir, háskólasjóðir auk einkafjárfesta sem ekki er vitað hverjir eru.

„Það er nú þannig að við höfum ekki tök á að vita það frekar en bara í eignarstýringarfélögum hér. Við erum ekki í aðstöðu til að þekkja það. Við vitum bara hverjir það eru sem eru að stýra sjóðunum en ekki hverjir eiga hluti í sjóðunum. Við vitum ekki hverjir eru fjárfestarnir í sjóðunum. Ef að það þarf að skoða það sem verður eflaust gert þá er það FME sem að gerir það. “

Einn af nýju eigendum Arionbanka, vogunarsjóðurinn Och-Ziff þurfti nýverið að borga himinháa sekt vegna mútumála í fimm Afríkuríkjum eftir að tveir starfsmenn hans urðu uppvísir að því að hafa greitt embættismönnum í Líbíu, Tsjad, Níger, Gíneu og Kongó meira en 100 milljónir dollara í mútur. Stafsmönnunum var samstundis sagt upp og sæta þeir nú rannsókn. Sjóðurinn féllst á að greiða 413 milljónir dollara í sekt og tapaði til viðbótar rúmum 4 milljörðum bandaríkjadala. 

„Ég þekki það ekki mikið umfram það sem hefur komið í fréttum og ég fór á vefinn og skoðaði það og þar kemur fram að tveir starfsmenn þessa sjóðs höfðu rangt við og sjóðurinn hefur liðið fyrir það en í sjálfu sér veit ég ekki meira um það.“