„Ég er náttúrulega glöð með að það skyldi vera fyrirvaralaus sýkna. Ég treysti engu fyrr en það var komið en á sama tíma finn ég til mikillar hryggðar yfir því að þetta skuli ekki vera búið enn,“ sagði Erla Bolladóttir um dóm Hæstaréttar í Guðmundar- og Geirfinnsmálinu í dag. Hún var sú eina af þeim sem voru sakfelld sem fékk ekki endurupptöku máls síns. „Þetta hefði átt að klárast í dag. En endurupptökunefnd kaus að skila mjög vafasamri niðurstöðu sem ég neyðist til að kæra til að klára þetta.“
Erla mætti í Hæstarétt í dag þar sem kveðinn var upp sýknudómur yfir þeim fimm sem sakfelldir voru ásamt henni árið 1980. Hún var ekki sakfelld fyrir hvarf og morð á mönnunum tveimur sem Guðmundar- og Geirfinnsmál eru kennd við heldur fyrir meinsæri. Það var eini hluti málsins sem var ekki endurupptekinn.
„Erla segir að sitt mál sé á sama stað og þegar beiðni hennar um endurupptöku máls síns var hafnað. „En með þessu núna er búið að lýsa því yfir að minn framburður í málinu sé ómerkur og þá gengur ekki að hægt sé að plokka út framburð í meinsærismálinu og að það sé eitthvað að marka hann því hann var fenginn á alveg sama hátt og aðrir frambuðir í þessu máli.“ Hún vísar þar til þess hvernig lögregla knúði fram játningar sakborninga sem síðar hefur komið í ljós að var ekki að marka.
Erla segist verða að kæra niðurstöðu síns máls til héraðsdóms og vona að það taki ekki langan tíma. Hún segist vera búin að undirbúa kæru í máli sínu og að Ragnar Aðalsteinsson ætli að reka það fyrir sig. „Þegar svigrúm gefst fer af stað söfnun örugglega, sem stóð til fyrir löngu síðan áður en ákveðið var að bíða eftir sýknunni, til þess að standa straum af kostnaði fyrir héraðsdómi.
Erla segist hafa efast um að málið yrði endurtekið og sýknað fyrir manndrápshlutann. „Eftir allt sem á undan er gengið treysti ég engu. Að því leyti er þetta mikið gleðiefni í dag, eitthvað gott gerðist hér í dag. Stórkostlegt í rauninni. Ég gerði þá vitleysu að vænta réttrar niðurstöðu hjá endurupptökunefnd og það var ansi mikið áfall þegar hún kom. Eftir það hef ég ekki gefið mér neitt.“