Baðst afsökunar á sínum þætti við uppreist æru

13.09.2017 - 14:19
Mynd með færslu
 Mynd: Axel Sigurðarson  -  Guðni Th. Jóhannesson
Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, hafði samband við fyrrum stjúpdóttur Hjalta Sigurjóns Haukssonar, eftir að hún tjáði sig í viðtali við fréttastofu RÚV, og bað hana afsökunar á sínum þætti við uppreist æru Hjalta.

Hjalti Sigurjón var árið 2004 dæmdur í fimm og hálfs árs fangelsi fyrir gróf og ítrekuð brot gegn stjúpdóttur sinni. Brotin stóðu yfir á tólf ára tímabili, frá því stúlkan var um það bil fimm ára. Hjalti fékk uppreist æru í fyrra, sama dag og annar dæmdur barnaníðingur, Robert Downey.

Fyrrum stjúpdóttir Hjalta sagði í viðtali við RÚV fyrir helgi að henni hafi ofboðið vinnubrögð stjórnvalda, ábyrgðaleysi og takmörkuð svör. Hún vilji vita rökstuðning yfirvalda fyrir því að veita dæmdum barnaníðingum uppreist æru. „Ég hefði viljað vita þetta augliti til auglitis. Þetta er það stór ákvörðun og þetta hefur áhrif á fleiri en bara þann sem fær þessa viðurkenningu, mér finnst þetta ekkert annað en viðurkenning fyrir hann, og ég vil bara fá að heyra útskýringuna og rökstuðninginn augliti til auglitis. Mér finnst ég alveg eiga það skilið," sagði konan, sem kom fram undir nafnleynd vegna barna sinna.

Forsetinn hafði samband við konuna um helgina og bauð henni á sinn fund. Þau hittust á Bessastöðum í gær. Hún segir fundinn hafa verið góðan. Með þessu hafi Guðni brugðist við ákalli hennar um útskýringar augliti til auglitis. Guðni bað hana afsökunar á sínum þætti í ferlinu, en hann skrifaði undir tillögu þáverandi dómsmálaráðherra um uppreist æru Hjalta.