Fyrstu tónleikar nýrrar Sinfóníuhljómsveitar Austurlands voru haldnir í Tónlistarmiðstöð Austurlands á Eskifirði á fullveldisdaginn 1. desember. Þetta voru hátíðartónleikar í tilefni 100 ára afmælis fullveldis Íslands og tóku austfirskir karlakórar þátt.

Þá var einnig fullveldisfögnuður með ljóðalestri, ræðuhöldum og tónlist í Menntaskólanum á Egilsstöðum. Þar var ýmislegt þjóðlegt og gott á boðstólum og sýningin Austfirskt fullveldi - sjálfbært fullveldi sem helguð var tengslum fullveldis og sjálfbærni. Þar var nútímanum og lífinu á fullveldisárinu stillt upp hlið við hlið. Aðstæður ungs fólk þá og nú bornar saman og mátti sjá myndir af sama unga fólkinu teknar með bæði ljósmyndatækni nútímans og þeirri sem notuð var fyrir 100 árum.

Á Eskifirði var sem áður segir stór dagur fyrir austfirska tónlistarmenn en fjórðungurinn hefur eignast sína eigin sinfóníuhljómsveit. „Já, þetta er alveg ótrúlegt að við séum að sjá þetta verkefni koma saman. Þetta eru fyrstu tónleikar Sinfóníuhljómsveitar Austurlands. Þessi hljómsveit er stofnuð algjörlega af grasrót í tónlist hérna þannig að frumkvæðið er algjörlega þeirra og við erum með 29 hljóðfæraleikara á sviðinu sem eru að austan og svo 19 hljóðfæraleikara sem koma að norðan og sunnan og svo hljómsveitarstjóra,“ segir Karna Sigurðardóttir, forstöðumaður Tónlistarmiðstöðvar Austurlands. „Við erum með alveg frábært tónlistarfólk hér fyrir austan og það er ótrúlega mikilvægt fyrir þau að hafa möguleikann á því að koma saman og spila saman í sinfóníuhljómsveit. Og núna getum við flutt sinfóníuverk hérna fyrir Austfirðinga þannig að þetta er mjög mikilvægur dagur í tónlistarsögu Austurlands, það er alveg á hreinu og kannski bara Íslands,“ segir Karna. Hljómsveitarstjóri var Zigmas Genutis og konsertmeistari Zsuzsanna Bitay.

Í spilaranum hér að ofan má sjá svipmyndir frá sýningunni í Menntaskólanum á Egilsstöðum og tónleikunum á Eskifirði.