Auknar vonir um pólitíska lausn í Líbíu

03.05.2017 - 15:01
In this Tuesday, May 2, 2017, photo supplied by the Libyan armed forces, Tripoli-based Prime Minister Fayez Serraj, left, poses for a photograph with Field Marshal Khalifa Hifter, right, in Abu Dhabi, United Arab Emirates. The two met Tuesday in the UAE
Fayez al-Sarraj (t.v.) og Khalifa Haftar í Abu Dhabi.  Mynd: ASSOCIATED PRESS  -  Libyan armed forces
Stjórnvöld í Sameinuðu arabísku furstadæmunum eru vongóð um að hægt verði að finna pólitíska lausn á ófriðinum í Líbíu. Sameinuðu arabísku furstadæmin höfðu milligöngu um að leiðtogar tveggja helstu fylkinga landsins hittust í Abu Dhabi í gær. 

Fayez al-Sarraj, forsætisráðherra sitjandi stjórnar í Trípólí, og herforinginn Khalifa Haftar, sem ræður að mestu austurhluta Líbíu hittust í Abu Dhabi. Haftar nýtur stuðnings frá Egyptum og Sameinuðu arabísku furstadæmunum og viðurkennir ekki stjórnina í Trípólí.

Þetta var í annað skipti sem þeir hittast síðan Sarraj varð skipaður forsætisráðherra undir lok árs 2015. Í yfirlýsingu sem utanríkisráðuneyti furstadæmanna sendi frá sér í morgun sagði að fundurinn hefði vakið vonir um pólitíska lausn og að með honum hefði verið stigið skref í þá átt.

Fréttastofan AFP segir að fleiri hafi komið að sáttaumleitunum milli stríðandi fylkinga í Líbíu undanfarna daga. Þannig hafi Martin Kobler, erindreki Sameinuðu þjóðanna, rætt við ráðamenn í Súdan um helgina, bandamenn Sarrajs.

Daginn eftir hafi hann átt fund með Mahmud Jibril, sem var forsætisráðherra Líbíu í sjö mánuði í upphafi átakanna þar árið 2011. Þá hafi Abdel Fattah al-Sisi, forseti Egyptalands, ætlað til Abu Dhabi í dag, en ekki hafi fengist staðfest hvort heimsóknin tengdist málefnum Líbíu. 

 

Kristján Róbert Kristjánsson
Fréttastofa RÚV