„Fyrst þegar maður labbar út og það er enginn vindur finnst manni ekkert svo kalt en svo finnur maður þennan nístingskulda. Til dæmis ef þú ert með linsur í augunum geta þær hreinlega frosið og mjög fljótt getur öll húð sem ekki er klædd og varin orðið mjög köld,“ segir Kolbrún.
Fimbulkuldinn stafar af ísköldu lofti úr heimskautahvirflinum sem jafnan er umhverfis norðurpólinn. Kuldinn í Chicago verður í dag meiri en á hluta Suðurskautslandsins og yfirvöld í Illinois, Michigan og Wisconsin gera sitt til að bregðast við frostinu. Talið er að hið minnsta sex séu látin eftir frosthörkurnar.
Það er þó útlit fyrir betri tíð á svæðinu.
„Það er spáð 29 gráðu frosti hér í dag og sautján gráðu frosti á morgun. Svo á að fara að hlýna og hitinn fer yfir frostmark fyrir helgi. Það á að rigna hér á laugardaginn,“ segir Kolbrún.