Björn Snæbjörnsson, formaður Starfsgreinasambandsins, segir að mönnum sé misboðið eftir útspil ríkisstjórnarinnar í kjaraviðræðurnar í gær og telur að það verði auðveldara að fá fólk í aðgerðir núna en áður
„Við höfum sagt það frá upphafi að það sem kæmi frá stjórnvöldum gæti verið lykillinn að því að við gætum náð saman kjarasamningum við Samtök atvinnulífsins. Ég ætla ekki að segja að allt sem kom þarna fram í gær hafi verið neikvætt. En við höfðum lagt mikla áherslu á skattamál." Tillögur stjórnvalda hafi verið langt undir því sem væntingar lágu til. „Þetta voru mikil vonbrigði," sagði Björn. Það þýði að róðurinn þyngist gagnvart SA.
„Okkar kröfugerð liggur fyrir. Við vitum reyndar að þegar við leggjum fyrir kröfugerð að við fáum aldrei allt sem þar er. En það hlýtur að þýða að við verðum grimmari á þeirri kröfugerð heldur en ef við hefðum fengið meira frá ríkinu," sagði Björn í Morgunútvarpi Rásar 2.