Stór hluti þeirra sem nýta þjónustu atvinnulífstengla eftir starfsendurhæfingu hjá VIRK er ungt fólk með háskólamenntun. Jónína Waagfjörð, sviðstjóri þróunar atvinnutengingar hjá VIRK segir að atvinnulífstenglarnir hafi útvegað hundrað fimmtíu og sex störf á síðasta ári. Atvinnulífstenglar aðstoða fólk, sem dottið hefur út af vinnumarkaði og ekki náð fullri starfsgetu aftur, til að komast í starf að nýju.

Flestir sem útskrifuðust eru með háskólapróf

Algengustu ástæðurnar fyrir því að fólk kemur í starfendurhæfingu hjá VIRK eru stoðkerfisvandamál og andleg vandamál. Þrjú hundruð  af þeim sem þar voru í fyrra var vísað til atvinnulífstengla VIRK sem útveguðu um helmingi þeirra störf. Þrjátíu og átta prósent þeirra sem fengu starf voru með háskólapróf, þrjátíu prósent með framhaldsnám eða iðnmenntun og 27 prósent með grunnskólapróf.  
Flestir voru á aldrinum 25-34 ára, eða 31 prósent, 25% voru á aldrinum 35-44 ára og 26% á aldrinum 45-54 ára. Langflestir fóru í hlutastörf en 28 prósent fóru í 90 til 100% starfshlutfall. 

Para saman fyrirtæki og einstakling

Um helmingurinn, eða 57% þeirra sem útskrifuðust í starf eftir þjónustu hjá atvinnulífstenglum VIRK höfðu verið fjarverandi frá vinnumarkaði í allt að sex mánuði og 12% höfðu ekki verið í starfi í meira en 36 mánuði. Rannsóknir hafa sýnt að því lengur sem fólk er frá vinnumarkaði því erfiðara er að fara inn á hann aftur. Fólk tapar sjálfstraustinu og vandamálið verður erfiðara að yfirstíga.  

Jónína segir að þegar fólk sé tilbúið til að reyna að komast aftur á vinnumarkaðinn komi það til atvinnutenglanna sem aðstoða það við að búa til ferilskrá, hjálpa við að semja kynningabréf, æfa fyrir viðtöl og aðstoða við að leita að atvinnu.  

„Vð erum aðeins öðruvísi en bara að tengja fólk við eitthvert starf heldur erum við alltaf að reyna að para saman rétt fyrirtæki og einstakling og síðan styðja hann inn þannig að við erum ekki búin þegar starfið er komið oft og tíðum. En oft vill fólk bara finna sér starfið sjálft og fer svo bara í vinnu og þarf ekki neinn stuðning þegar það er komið af stað. Það bara eflist og er bara mjög góðir starfsmenn venjulega. Við fáum oft fyrirtæki sem hringja og biðja okkur um að finna annan því þeir fengu hjá okkur einhvern sem stóð sig rosalega vel og mundi vilja athuga hvort það væri ekki einhver annar sem væri laus og gæti komið í vinnu hjá þeim.“

Með samning við um 150 fyrirtæki

Starf atvinnulífstenglanna byrjaði árið 2015 þegar ljóst var að sumir sem útskrifuðust frá VIRK voru ekki með fulla starfsgetu. Þá var VIRK ekki með nein tengsl inn í atvinnulífið heldur var fólk endurhæft til starfa og fór síðan sjálft að leita sér að vinnu. Í eftirfylgni kom í ljós að ef fólk var ekki komið með vinnu þegar það fór frá VIRK var mjög erfitt fyrir það að finna vinnu.

„Þannig að við fórum að hugsa við ættum kannski að stíga extra skref fyrir þessi með skertu starfsgetuna og reyna að hjálpa þeim að komast lengra inn á vinnumarkaðinn og þannig byrjaði þetta. Við fórum að skoða hvernig við gætum gert þetta og við náttúrlega áttuðum okkur strax á að ef við ætluðum að geta þetta þá þyrftum við að vera með einhverja tengingu við einhver fyrirtæki. Við byrjuðum eiginlega þar. Við fórum að hitta fyrirtæki segja þeim frá hvað við værum að hugsa og hvort þau vildu koma í þetta samstarfsverkefni.“

Atvinnulífstenglarnir eru núna með samning við 156 fyrirtæki sem hafa skrifað undir samstarfsyfirlýsingu. Hún er ekki skuldbindandi heldur fjallar um að í fyrirtækinu sé tengiliður við VIRK. Einnig eru fyrirtæki sem eru með tengiliðið við VIRK en hafa ekki skrifað undir yfirlýsingu þess efnis. Jónína segir að líklega séu á milli þrjú og fjögur hundruð fyrirtæki í samstarfi við VIRK.

Fólk með skerta starfsgetu fær ekki tækifæri

Atvinnulífstenglarnir hafa samband við tengiliðinn í fyrirtækinu og spyrja hvort þeir megi senda ferilskrá. Oft verður það til þess að fólkið er kallað í atvinnuviðtal, segir Jónína. 

„Þetta fólk með skerta starfsgetu fær venjulega ekki þetta tækifæri vegna þess að það eru kannski 50 umsóknir og þar inni eru 45 hundrað prósent en svo eru nokkrar þar sem fólk er með gat í ferilskránni, hefur verið frá vinnumarkaði í einhvern tíma. Og þegar þú sem atvinnurekandi ert að reyna að finna þá sem þú vilt tala við þá kannski tekur þú ekki þessa ferilskrár. Það þarf svolítið að lyfta þeim upp en það er algerlega í hendi atvinnurekandans hvern hann ætlar að ráða.“

Núna eru atvinnulífstenglarnir í sérstöku átaki til að ná til ungs fólks á aldrinum 18-29 ára. 

Hægt er að hlusta á allt viðtalið við Jónínu Waagfjörð, í spilaranum hér fyrir ofan.