Kostnaður við framkvæmdirnar við Hafnartorg nemur um 13 milljörðum króna. Búið er að selja átta íbúðir í byggingunum og leigja út stærstan hluta verslunar- og skrifstofurýmis. Fyrstu verslanirnar á Hafnartorgi verða opnaðar innan tveggja vikna og fyrstu íbúarnir flytja inn í íbúðir sínar í desember. Meðalfermetraverð íbúðanna er um 900.000 krónur.

Framkvæmdir við sjö nýbyggingar á Hafnartorgi eru vel á veg komnar og ásýnd miðbæjar Reykjavíkur hefur breyst mikið með tilkomu þeirra. Byggingarnar eru samtals rúmir 23 þúsund fermetrar og í þeim verða íbúðir, verslanir, veitingastaðir og skrifstofurými. Heildarfjárfestingin á svæðinu nemur um 13 milljörðum króna, samkvæmt upplýsingum frá ÞG verki sem annast framkvæmdina, og á bæði íbúðar- og skrifstofurýmin í byggingunum. Alls verða íbúðirnar um sjötíu og fóru 40 þeirra í sölu fyrir um 10 dögum. 

„Við erum búin að selja átta af þeim sem er um 20% af því sem fór í sölu. Þannig að þetta fer betur af stað en við þorðum að vona,“ segir Davíð Már Sigurðsson, sölu- og markaðsstjóri ÞG Verk. Hann segir að fyrstu íbúarnir flytji inn í desember. 

„Meðalverð er um 900.000 krónur á fermeter. Íbúðirnar eru frá 60 milljónum upp í þakíbúðir sem eru á 258 milljónir. Þakíbúðirnar hækka þetta ansi hressilega upp. Þannig að fermetraverð er svona frá 780.000 upp í 1.100 þúsund plús.“
 
Hvað skrifstofurýmin varðar hefur þegar verið tilkynnt að Fréttablaðið flytji höfuðstöðvar sínar á Hafnartorg, auk fyrirtækisins Regusar. Alls fara 6.400 fermetrar undir skrifstofurými og flytja fyrstu fyrirtækin inn í nóvember.

„Af þeim rýmum sem við erum með eru 60% útleigð og búið að semja um þau. 20% eru í ákveðnu samningsferli þannig að stefnan er að klára það ferli allt fyrir jól,“ segir Davíð.

Áhersla á lúxus

Fasteignafélagið Reginn keypti öll verslunar- og þjónusturýmin í byggingunum og sér um útleigu þeirra.

„Það hefur gengið gríðarlega vel,“ segir Tinna Jóhannsdóttir, forstöðumaður markaðsmála Regins. „Þetta er búið að vera langt og strangt ferli en við erum þegar búin að leigja út um 80% af rýminu sem eru um 9.800 fermetrar í heild sinni.“

Verslanir H&M og H&M Home verða opnaðar á Hafnartorgi 12. október. Tinna segir að sérstök áhersla verði hins vegar lögð á svokallaðar lúxusverslanir.

„Og í þessu rými sem við stöndum núna sem er bæði á fyrstu og annarri hæðinni hérna til móts við stjórnarráðið og Arnarhól verður ein stór verslun, þekkt og stöndugt vörumerki sem ég veit að Íslendingar verða gríðarlega ánæðgðir með að fá til landsins,“ segir Tinna. „Og svo erum við með rými handan við Geirsgötuna sem er nær höfninni og í áttina að Hörpu. Þar verðum við með veitingarými og búum til bryggjustemningu meðfram hafnarbakkanum með veitingahúsum í bland við smásölu. Þannig að svæðið í heild sinni á eftir að verða gríðarleg upplyfting fyrir miðbæ Reykjavíkur og verslun á Íslandi í heild sinni. Ekki spurning.“