Átta ára drengur líður kvalir og missir úr skóla vegna þess að gigtarlyf sem hann þarf að taka er ófáanlegt hér á landi. Móðir drengsins segir það grafalvarlegt að ekki sé unnt að fá nauðsynleg lyf. Móðir hans furðar sig á því að enginn gæti þess að brýn lyf fáist hér á meðan þau eru aðgengileg íbúum annars staðar á Norðurlöndunum.
Átta ára sonur Sigurveigar Margrétar Stefánsdóttur er með afar sjaldgæfan gigtarsjúkdóm. Til þess að halda gigtinni í skefjum þarf hann að taka inn bólgueyðandi gigtarlyf. Síðast tókst þeim að fá lyfið í júní.
„Sem dugði eitthvað fram á sumarið en svo höfum við verið í því að reyna að bjarga okkur, eins og margir greinilega, því ég skrifaðist á við fólk í sömu vandræðum. Fólk er bara að skiptast á og snapa lyf frá vinum og ættingjum. Svo er til samheitalyf sem er ekki eins uppbyggt og hitt og við erum búin að vera að reyna það og eins og maður bjóst við þá er ekki að ganga að nota það, það hefur það miklar aukaverkanir,“ segir Sigurveig.
Samheitalyfið er það eina sem Sigurveig hefur núna handa syni sínum en það veldur honum miklum magaverkjum og hefur hann misst úr skóla vegna þessa. Sigurveig er læknir. Hún skrifaði færslu á Facebook í gær í þeirri von að einhver gæti útvegað lyfið.
„Ég er náttúrulega kannski í annarri stöðu en margur. Ég skrifaði í gær og þekki vissulega lækna víðs vegar um heim. Þannig að ég er komin með alls kyns tilboð. Það er heimilt að flytja einhver lyf inn til eigin nota. En það er ekki hver sem er sem getur gert þetta. Og ég er ekki komin með endanlega lausn ef lyfið er ekki að koma fyrir jól. En fram að því bjarga ég mér með „snapað og sníkt“,“ segir Sigurveig.
Lyfjaskorturinn er einnig viðvarandi vandamál í læknisstarfinu.
„Við erum búin að finna fyrir þessu sem læknar núna í a.m.k. þrjú ár. Það vantar núna ítrekað algeng sýklalyf og algeng hjartalyf,“ segir Sigurveig.
Hvað finnst þér um að staðan sé svona?
„Mér finnst þetta bara grafalvarlegt mál. Alveg burt séð frá því hvað þetta er mikið vandamál fyrir okkur sem lækna eða foreldra, þá er það bara það að það hafi engin yfirumsjón með þessu. Við erum bara háð einhverjum birgjum. Það er enginn sem passar upp á að góð og gild lyf séu til í landinu. Þetta er bara eins og það vanti lopa í búðir eða gallabuxur. Skýringin sem allir þeir apótekarar sem ég hef talað við hafa gefið mér er að þetta sé ekki til hjá birgja sem er mjög skrýtið í ljósi þess að þetta er til í Danmörku, Svíþjóð og Noregi skv. þeim upplýsingum sem ég hef ferskar frá því gær. Þannig að ég hef kannski tilfinningu fyrir því að við séum ekki áhugavert svæði fyrir birgja, af því að við erum svo lítið svæði, við erum eins og lítil borg í öðrum löndum,“ segir Sigurveig.
Fréttir hafa verið sagðar af skorti á fleiri lyfjum. Heilbrigðisráðherra var spurð um það á Alþingi á mánudag. Ráðherra var undrandi á því hversu algengt vandamál þetta væri og benti á að unnið væri að nýju frumvarpi sem fæli í sér heildarendurskoðun á lyfjalögum.
Hvað gerist ef sonur þinn fær ekki þetta lyf?
„Þetta er bólgueyðandi gigtarlyf, þannig að það þýðir bara auknir verkir og aukinn sjúkdómur. Þannig að þetta er ekki eitthvað sem okkur má vanta. En svo hugsar maður náttúrulega líka: Hann er á lyfjum sem bæla ónæmiskerfið, hann er á fleiri lyfjum, hvað ef slík lyf fer að vanta? Ef enginn fylgist með þá getur allt eins komið til þess,“ segir Sigurveig.