Sigurður Árnason, hérðaslæknir á Kirkjubæjarklaustri, hefur gengið á milli húsa í þorpinu ásamt fleira heilbrigðisstarfsfólki og athugað líðan íbúanna í dag.

„Við höfum haft samband við alla sem við vissum að væru lasnir og kannað hvernig einstæðingar og lungnasjúklingar hafa það,“ segir Sigurður. Sálræna hliðin sé þó jafnvel enn mikilvægari. „Margir skilja núna kannski í fyrsta sinn á æfinni orðatiltækið að sjá ekki handa sinna skil. Margir þurfa á huggun að halda og það að hugsa um sálir manna er í fyrsta sæti. Hitt reddast.“

Á sveitabænum Kirkjubæjaklaustri þurftu ábúendur að eyða deginum innandyra. Börnin þrjú á bænum tóku þessu með styllingu en sá þriggja ára spurði undrandi hvenær kæmi eiginlega dagur.