Atvinnulausu fólki og nemum verður boðin vinna við að aðstoða bændur og aðra þá sem hafa orðið illa úti af völdum eldgossins. Fólk hefur verið sent á gossvæðið til að kortleggja aðstæður og leggja til aðgerðir fyrir fund ríkisstjórnar á föstudag.
Samráðshópur undir stjórn Almannavarna byrjaði í dag að kortleggja afleiðingar eldgossins í Grímsvötnum. Hópurinn skilar skýrslu með tillögum um aðgerðir til ríkisstjórnarinnar fyrir fund á föstudag. Ráðherrar funduðu í morgun með sérfræðingum og ríkislögreglustjóra þar sem fjallað var um eldgosið og viðbrögð við því.
Þegar hefur verið ákveðið að bjóða atvinnulausu fólki og nemum vinnu við að aðstoða fólk á þeim svæðum sem hafa orðið verst fyrir barðinu á öskufalli.
Fjármálaráðherra sagðist hafa áhyggjur af bændum sem hann sagði að væru undir miklu álagi á þessum árstíma við bestu aðstæður. „Þannig að þegar svona aðstæður bætast við þá verður þetta mjög fljótt mjög erfitt. Þess vegna held ég að eitt alla brýnasta sé að koma bændum til aðstoðar eins fljótlega og mögulegt er og setja afleysingamannskap inn á svæðin til að aðstoða þá,“ sagði Steingrímur J. Sigfússon í viðtali við fréttastofu RÚV í dag.
Þeir sem verða fyrir tjóni fá það bætt úr bjargráðasjóði og viðlagatryggingu. Ljóst má þó vera að fleira þarf að gera við hreinsun og uppbyggingu.
Ráðherrarnir lýstu áhyggjum af áhrifum gossins á ferðaþjónustu í upphafi þess sem hefur verið kallað stærsta ferðasumar sögunnar. Viðbragðshópur stjórnvalda og ferðaþjónustu sem settur var á fót vegna eldgossins í Eyjafjallajökli í fyrra fundar daglega og kannar hvort og þá hvaða aðgerða þurfi að grípa til.