Ástin á áferð hljómsins er hvatinn

18.03.2017 - 09:08
Lestin · Tónlist · Menning
Ambíent-söngvaskáldið Benoît Pioulard kom til Íslands á dögunum og hélt tónleika í Mengi við Óðinsgötu. Benoît þessi er ekki franskur eins og halda mætti af nafninu heldur bandarískur í húð og hár, heitir Thomas Meluch og er fæddur í Michigan.

„Ég hef alltaf laðast frekar að tónlist í moll,“ segir Benoît Pioulard í viðtali við Atla Bollason í lestinni.

Þegar hann var 9-10 ára var In Utero með Nirvana uppáhalds platan hans og Benoît telur hana hafa til að bera beittan og gljáandi hljóm, þó ekki lausan við grófleika. Hann leiddist síðar út í tónlistarmenn eins og Aphex Twin, en þar var það ekki bara áferðin sem höfðaði til hans heldur líka svartur húmorinn. Mogwai heilluðu hann einnig með íhugulu gítarplokki sem hann segir laust við væmni sem oft einkenni oft ósungna dramatíska rokktónlist af þessu tagi.

Það var ekki síst svartur húmor Aphex Twin sem heillaði Benoît Pioulard en hann nýtur sín vel í þessu myndbandi eftir Chris Cunningham.

Brian Eno hafði einnig mikil áhrif á hann, ekki síst því hann gat bæði samið grípandi tilraunakennd popplög og gullfallega ambíent tónlist. Eno var ekki fyrstur til að búa til Ambient-tónlist en hann gaf henni nafn og nokkurs konar hugmyndafræði. Benoît segir alla sína tónlistarsköpun vera virðingarvott við ofantalda listamenn sem hann hafi miskunnarlaust stolið hugmyndum frá. Benoît sem semur jöfnum höndum hefðbundin „lög“ og svokölluð „ambient“ verk, það er tónlist sem líður áfram tiltölulega formlaust.

Brian Eno hefur verið Benoît mikill innblástur með því að blanda saman poppi og ambíent-tónlist. Hér má hlýða á upphafslag plötunnar Another Green World frá 1975.

Benoît segir að það sé sami hvatinn að allri sinni tónlist, hvort sem það séu þjóðlagaskotin sönglög eða fljótandi hljóðskúlptúrar: „Ástin á áferð hljómsins.“ Hann semur lögin þannig að hann stillir gítarinn á einhvern áður óþekktan hátt og fer síðan í göngu eða hljólreiðatúr og leyfir laglínum að verða til í höfðinu. Þegar hann kemur til baka hljómsetur hann svo melódíurnar eftir eyranu á gítarinn. Ambíent-verkin verða til eins og í leiðslu, hann eyðir ákveðið löngum tíma á dag við effektapedalana og leyfir hljóðunum að streyma fram í fingurgómana. Benoît  er mikið fyrir að blanda saman hreinu hljóðmerki og svo bjöguðu hljóði af snældum. Honum leiðist hreinn og beinn frágangur á tónlist og segir mörg góð lög hafa eyðilagst við ofurpródúseringu.

Af nýjustu skífu Benoît Pioulard, The Benoît Pioulard Listening Matter.

Þrátt fyrir að vera virtur tónlistarmaður og hafa hlotið fína dóma, þar á meðal talsverða umfjöllun í indíbiblíunni Pitchfork, nær Benoît ekki að lifa af list sinni. Á daginn vinnur hann sem þjónn í hinni svokölluðu Geimnál, einu af einkennistáknum Seattle-borgar. Benoît finnur einnig fyrir þörf til að skrifa og segir föður sinn hafa kennt sér að meta hitt ritaða orð, orðaleiki og kjarnyrtar hugsanir. En það er ekki síður hljómur orðanna, ekki bara merkingin, sem heillar hann. „Í ljóðum verður til hljómræn áferð þegar atkvæði koma saman. Lengi vel samdi ég bulltexta þar sem orðin voru á ensku en mynduðu ekki málræna heild heldur hljómræna,“ segir Benoît að lokum.

Atli Bollason ræddi við ambíent-söngvaskáldið Benoît Pioulard í Lestinni á Rás 1.

Dæmi um ambient-verk Benoît án söngs og takts.
Mynd með færslu
Vefritstjórn
Lestin
Þessi þáttur er í hlaðvarpi