Ásmundur Friðriksson alþingismaður segist hafa reynt að leigja Alþingi bifreið sína en hugmyndin hafi ekki hlotið hljómgrunn hjá skrifstofu þingsins. Hann vilji ekki sætta sig við reglu um að alþingismenn taki bílaleigubíla þegar þeir hafa ekið 15.000 kílómetra. Hann segir að bílaleigubílarnir séu útkeyrðir og ekki góðir.

Þetta kemur fram í viðtali við Ásmund sem sýnt verður í Kastljósi í kvöld. Þar kemur einnig fram að hann láti Alþingi greiða fyrir allan akstur þegar hann hittir kjósendur flokksins í prófkjörum.  Hann segist ekki hafa samið reglurnar og starfi innan þeirra.  

Fram kom í Morgunútvarpinu á Rás 2 í morgun að samkvæmt útreikningum FÍB þá megi gera ráð fyrir að Ásmundur hafi fengið um 2.5 milljónir króna í greiðslur í fyrra umfram það sem það kostaði að aka bílnum tæplega ríflega 47 þúsund kílómetra.   Greiðslurnar séu því ríflega fyrir raunverulegum kostnaði. 

Viðbót: Strax eftir viðtalið viðurkenndi Ásmundur að hafa farið rangt með þegar hann var spurður út í hvort hann hefði látið ríkið greiða fyrir akstur við upptökur á þættinum Auðlindakistan. Hann sagði að upptökufólk hefði setið með honum í bílnum á leið í upptökur á viðtölum. Ferðirnar hafi fyrst og fremst verið til að hitta kjósendur en tökulið ÍNN hafi fengið að fljóta með til að gera sjónvarpsþætti.

Ingvi Hrafn Jónsson eigandi ÍNN sagði í samtali við fréttastofu Rúv að hann minnti að Ásmundur hefði gert þrjá til fjóra þætti fyrir ÍNN. Bifreið ÍNN hefði farið með í að minnsta kosti tvö skipti.  

Hægt er að horfa á viðtalið í heild sinni í spilaranum hér fyrir ofan.