Ásmundur Einar Daðason félags- og barnamálaráðherra segir að fyrsta verk ráðuneytis hans, í framhaldi af niðurstöðum rannsóknar á líðan barna og ungmenna um vaxandi vanlíðan ungmenna hér, sé að kalla til fundar fulltrúa annarra ráðuneyta, sveitarfélaga og skólanna. Þar þurfi að ræða hvort hægt sé að koma hér upp svonefndu lágþröskuldaúrræði, eins og gert hafi verið í Danmörku.

Ásmundur Einar var í viðtali við Óðinn Jónsson á Morgunvaktinni á Rás 1 og sagði meðal annars frá því hvað lágþröskuldaúrræði er: 

„Þar sem að ungt fólk getur komið inn án þess með ýmis vandamál, bara það sem því býr á hjarta án þess að vera með tilvísun frá lækni eða eitthvað slíkt. Og þetta var sett upp af þáverandi forsætisráðherra, Poul Nyrup Rasmussen, vegna þess að dóttir hans hafði þá framið sjálfsvíg og hann hafði ekki hugmynd um eitt eða neitt. Og þetta er að verða gríðarlega öflugt félagslegt úrræði, sem að allir koma að í Danmörku. Við höfum verið að skoða möguleikana á því að koma slíku upp hér á Íslandi og meðal annars verið að ræða við grasrótarhópa sem að hafa haft áhuga á að koma að slíku og við ólík ráðuneyti.“

Hverjir eru þetta sem myndu sinna þessari þjónustu?

„Það er bara allur gangur á því. Það fer bara í rauninni eftir hverju einstaklingurinn er að falast eftir en hugsunin á bak við þetta er kannski dálítið sú að þetta sé aðgengilegt. Þetta sé nálægt, nálægt, ungmennunum og að þú þurfir ekki að vera með einhvern skilgreindan vanda þegar þú komir þarna inn.“