Fólk hengdi öskupoka hvert á annað til að hæðast að kaþólskum hefðum á Íslandi eftir siðaskipti, segir Kristín Einarsdóttir - en hún skrifaði meistararitgerð um sögu öskudagsins.
„Askan er kaþólskt tákn og í kaþólskum söfnuðum er enn hægt að sjá fólk í athöfnum vera með krossmark á enninu úr ösku,“ segir Kristín. Askan hafi tengst hreinsunareldinum og þar af leiðandi hreinsun. Eftir siðaskiptin, þegar tekin var upp mótmælendatrú hér á landi, var farið að gera grín að kaþólskum siðum og þannig hafi askan á öskudaginn komið til. Á 18. öld hafi karlmenn á sveitabæjum byrjað að „setja steina“ á konur og konur að „setja ösku“ á karla.
Til að byrja með var þetta ekki í pokum, eins og síðar varð, heldur bara aska og steinar. „Og það sem mér finnst mjög merkilegt er að þetta virðist hafa verið ofbeldis- eða eineltistæki oft,“ segir Kristín. Það séu jafnvel dæmi þess að fólk hafi ekki viljað fara fram úr rúminu allan þennan dag því það var hrætt við niðurlæginguna sem fylgdi því að fá á sig ösku eða stein, þó að þetta hafi líka verið saklausari hrekkur á öðrum bæjum.
Kristín sem venjulega talar frá Ströndum mætti í hljóðver í Mannlega þáttinn og fjallaði um sögu öskudagsins. Hægt er að hlusta á viðtalið í spilaranum.