Askan er farin að ryðja sér leið inn á Klausturhóla, dvalarheimili aldraðra á Kirkjubæjarklaustri. Starfsfólk þar hefur kappkostað að halda öskunni úti í dag og þegar fréttamann bar að garði voru handklæði við allar rifur, skálar með vatni á gólfum og starfsfólk gekk um og úðaði vatni í loftið til að minnka rykið.
„Því miður er húsið ekki betur byggt en þetta. Þegar hvessir þá kemur þetta allt inn,“ segir Sigþrúður Ingimundardóttir, hjúkrunarforstjóri. Þegar hún var spurð hvort til greina hefði komið að flytja fólkið á brott, spurði hún einfaldlega hvert þau ættu að fara. Veður og aðstæður eru slíkar að ekki þykir fýsilegt að flytja fólk á brott. Hún sagði að fólkinu liði vel, þau hefðu aðallega áhyggjur af astmasjúklingum en sem betur fer væri loftið betra inni á herbergjunum.