Ungt fólk frá Asíu hefur verið áberandi á götum miðborgarinnar síðustu daga. Svo virðist sem fjöldi ungmenna sem stundar háskólanám í Evrópu nýti jólafríið til að koma hingað og freista þess að sjá hvali eða norðurljós.
Sækja lítið í pakkaferðir
Millistéttin í Asíu fer stækkandi og fleiri hafa efni á að ferðast. Þetta á ekki síst við um ungt fólk sem vill ferðast á eigin vegum og sækir lítið í pakkaferðir. „Það er mjög jákvætt að þau sjá Ísland sem spennandi og ævintýralegan áfangastað fyrir allt árið,“ segir Daði Guðjónsson, verkefnisstjóri hjá Íslandsstofu.
Talsverður vöxtur sérstaklega í haust
Flestir asískir ferðamenn sem koma hingað eru frá Kína og Íslandsstofa á nær eingungis gögn um þann hóp. Í fyrra komu hingað tæplega 76 þúsund Kínverjar. Ekki er búist við því að þeir verði mikið fleiri í ár en dreifing komu þeirra yfir árið hefur breyst, þeim fjölgar sem velja að koma í september, október og nóvember.
„Það hefur verið talsverður vöxtur frá Asíu hins vegar eigum við ekki von á miklum vexti þetta ár, sérstaklega frá Kína en það er sá markaður sem er stærstur frá Asíu og við eigum mest gögn um. Það sem er athyglisverðast að sjá er að þeir dvelja lengur, við sjáum aukinn fjölda gistinótta og ef við berum saman Norðurlöndin þá dvelja þeir mun lengra hérna en annars staðar á Norðurlöndunum,“ segir Daði.
Ekki svo langt frá London til Íslands
Þau Alfred, frá Peking, og Tiffany, frá Guangzhou, spókuðu sig í miðbæ Reykjavíkur í dag. Þau eru frá Kína og stunda nám í fjármálafræði í London.
Alfred bendir á að það sé ekki svo langt frá London til Íslands, þau hafi langað til að skoða þetta fallega land og slegið til. Tiffany segist hafa áhuga á að sjá norðurljós og jökla, hún sjái lítið af því í suðurhluta Kína.
Ekki markaðssett sérstaklega
Íslandsstofa hefur ekki markaðsett Ísland sérstaklega á neytendamarkaði í Asíu en það hefur Icelandair aftur á móti gert um fimmtán ára skeið, fyrirtækið er með umboðsmenn víða í álfunni sem tryggja að Íslandsferðir séu sýnilegar á ferðaskrifstofum og á netinu. Nýir markaðir séu að opnast í Suður-Kóreu, Singapúr, Indónesíu og Malasíu.
Ungt fólk á framabraut
Samfélagsmiðlar skipta líka máli og komur asískra raunveruleikastjarna til landsins. Ársæll Harðarson, svæðisstjóri Icelandair í Asíu, segir að hingað komi einkum ungt fólk á framabraut sem sé tilbúið að verja talsverðum fjárhæðum á ferðalagi um framandi lönd, það komi hingað frá Asíu og skoði sig oft um víðar á Norðurlöndunum. Þá hafi færst í aukana að ungmenni sem eru við nám í Evrópu nýti fríin til að ferðast í stað þess að fara heim.
Greiningar Íslandsstofu taka til þjóðernis en ekki þess hvaðan fólk flýgur til Íslands. Að sögn Daða skera asískir ferðamenn sig frá öðrum hópum að því leyti að þeir eru yngri. Hugsanlega liggur hluti skýringarinnar í háskólanemum sem skreppa til Íslands í jólafríinu.