Arnþrúður Karlsdóttir, útvarpsstjóri Útvarps Sögu, segir að menn séu farnir að teygja sig meira inn í stjórnsýsluna og framkvæmdavaldið og beita sínum mönnum þegar þarf að koma óþægilegum röddum frá eins og Útvarpi Sögu sem stundi gagnrýna hugsun. Hún segir stöðina hvergi af baki dottna þrátt fyrir ólgusjó þótt það geti auðvitað reynst erfitt ef „dómsvaldið og ákæruvaldið er búið að bætast í hóp þeirra sem eru tilbúnir að þagga niður í okkur.“
Arnþrúður var gestur Morgunútvarpsins á Rás 2 í morgun.
Í síðustu viku var greint frá því að einn starfsmaður stöðvarinnar, Pétur Gunnlaugsson, hefði verið ákærður fyrir hatursorðræðu og útbreiðslu haturs í útvarpsþættinum „Línan er laus“ í apríl á síðasta ári. Ákæran tengist nokkrum öðrum kærum sem Samtökin '78 lögðu fram í tengslum við umræðu um hinsegin fræðslu í grunnskólum Hafnarfjarðar.
Arnþrúður gagnrýnir ákæru lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu. Hún sé óskýr - hún hafi eiginlega aldrei séð annað eins. „Grundvallaratriði í öllum refsirétti er að menn viti hvar mörkin liggja, að þeir viti nákvæmlega fyrir hvað þeir séu ákærðir fyrir. Það er ekki í þessu máli. Auðvitað verða menn að vita hvenær þeir brjóta lög og hvenær ekki.“
Í ákærunni er fjögur samtöl Péturs við hlustendur skrifuð upp. Eitt þeirra er svona samkvæmt ákæru lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu:
- [Hlustandi]: Ég veit um það en ég bara segi, eða skilaboð til þessarar stelpu eru þau.
- [Pétur]: Hmm.
- [Hlustandi]: Ætlar hún að sýna hvernig lessur eðla sig?
- [Pétur]: Hmm
- [Hlustandi]: Þó ég sé dónaleg, ég veit það en þetta er það sem hún ætlar að kenna þeim og þá verður hún að sýna þeim það.
- [Pétur]: Já.
- [Hlustandi]: Og mundi nokkur leyfa henni að fara að þukla á börnunum. Ég segi bara það, ég er ekki lesbía, ég á átta börn og hef aldrei verið lesbía.[Pétur]: Það er þannig að það er ekki endilega fólk sem er samkynhneigt eða konur sem eru lesbíur sem eru að mæla með þessu. Þetta er bara gagnkynhneigt fólk sem er að vilja að börnin fái þessa svokölluðu fræðslu; það er það sem er að gerast í málinu.
Arnþrúður segir að hatursorðræða sé nýyrði í daglegu tali - eiginlega allt sé hatursorðræða. „Menn eru bara að nota íslensku og íslenskt mál. Hatur er skilgreint sem tilfinning - andúðartilfinning. Menn kannast við að hafa andúð á ákveðnum hlutum en það er ekki endilega hatur. Það sér það hver maður. Á að fara ákæra út af tilfinningum?“
Hún segir að í ákvæðinu, sem liggi til grundvallar ákæru lögreglustjórans, sé hvergi minnst á hatursorðræðu heldur séu meiðandi ummæli bönnuð. „Hatursáróður er markaðssett orð sem er notað á Íslandi og hefur verið gert síðustu tvö árin. Þetta er mjög pólitískt.“
Arnþrúður telur ákæruna sjálfa ekki vera áfellisdóm yfir útvarpsstöðinni. Ákæra og dómur séu gjörólíkir hlutir og mýmörg dæmi séu um að ákærur hafi fallið um sjálfar sig í anddyri dómstólanna. Hún bendir líka á að ákærurnar í tengslum við kærur Samtakanna ´78 beinist ekki eingöngu að Útvarpi Sögu. „Ég vil fá að vita hvað það er sem menn gagnrýna. Þetta eru tilfinningar fólks og upplifanir á því að því líkar ekki eitthvað. Og á að setja fólk í fangelsi fyrir það?“ Útvarpsstjórinn tók dæmi, máli sínu til stuðnings, ef hinsegin fólk gæfi út bók um BDSM. „Og svo kæmu gagnrýnisraddir á bókina, ætti þá að líta svo á að þetta væri hatursorðræða gagnvart þessum hópi?“
Arnþrúður segir ennfremur að ákveðin aðför hafi verið gerð að útvarpsstöðinni síðastliðin tvö ár. Þetta séu litlar pólitískar sellur sem taki sig saman og ráðist illþyrmilega að stöðinni og reyni að beina auglýsendum frá. Hún geti þó ekki sagt hverjir þetta séu. „Þetta eru pólitískar sellur. Það beinlínis komu fram aðilar fyrir kosningarnar í haust að tala mikið um hatursorðræðu en það er ekkert meiri hatursorðræða en var fyrir þrjátíu árum.“
Arnþrúður segir að menn séu farnir að teygja sig meira en í stjórnsýsluna og framkvæmdavaldið og beita sínum mönnum þegar þurfi að koma frá „óþægilegum röddum sem beita gagnrýnni hugsun eins og Útvarp Saga gerir.“ Hún segir að auðvitað ætli þau að halda ótrauð áfram. „En ef dómsvaldið og ákæruvaldið er búið að bætast í hóp þeirra sem eru tilbúnir að þagga niður í okkur þá er það bara þannig.“