Formaður Samfylkingarinnar segir að flokkurinn verði að bregðast við slæmu gengi í könnunum. Hann boðar fleiri þjóðaratkvæðagreiðslur og aukið vald til þjóðarinnar í mikilvægum málum. Hann ætlar þó ekki að segja af sér.
Árni Páll segist ekki ætla að segja af sér. „Ef að ég teldi að Samfylkingin væri ein í einhverri sérstakri stöðu þá auðvitað væri nærtækast að horfa á mínu stöðu. En þegar maður horfir á að þetta er almenn kreppa allra gamalla flokka og þegar maður horfir á þær hræringar sem eru í stjórnmálum í nágrannalöndum og Bandaríkjunum og alls staðar í kringum okkur þá er það niðurstaða mín allavega að ég vil leggja mitt af mörkum til þess að breyta Samfylkingunni og gera hana færa til þess að takast á við þessar nýju aðstæður,“ sagði Árni Páll á Morgunvaktinni á Rás1 í morgun.
Samfylkingin mældist með rúm níu prósent í Gallup könnun sem birt var í vikunni. Það er minnsta fylgi í sögu flokksins og þremur prósentustigum minna en í Gallup könnun fyrir rúmum mánuði. Árni Páll hefur látið hafa eftir sér að þörf sé á endurreisn flokksins á næstu misserum til að bregðast við slæmu gengi í könnunum. Það þurfi að stækka flokkinn, efla hann og breikka og gera aftur að þeirri fjöldahreyfingu sem hann var í upphafi.
Miklar hræringar séu í stjórnmálum og Samfylkingin verði að bregðast við þeim. „Það sem mér finnst mikilvægast er að horfa á hvað þessi dýfa er að segja okkur. Ég hef sett fram þá túlkunarskýringu og held enn fast við hana. Þegar ríkisstjórnin sveik annan ganginn sveik loforðið um þjóðaratkvæðagreiðslu að þá hafi fólk fyllst reiði og vonleysi og sú reiði bitnar á okkur líka. Á síðasta kjörtímabili vorum við ekkert á því að gefa þjóðinni tækifæri til að tjá sig um Icesave. Það voru mistök, alvarleg mistök og ég held einfaldlega að þjóðin sé komin að þeirri niðurstöðu, og ég deili þeirri skoðun með þjóðinni, að það sé í lagi að fela henni flókin málefni til úrlausnar, jafnvel viðkvæma milliríkjasamninga eins og í tilfelli Icesave,“ segir Árni Páll.