Viljum við hafa fjölbreytta menningu eða viljum við að hagkvæmnin ráði þannig að til verði meira þéttbýli? Spyr íbúi í Árneshreppi, minnsta sveitarfélagi landsins. Hún segist finna fyrir vilja til að viðhalda byggð en að framkvæmdir skili sér síður.
Sækir skóla í annað sveitarfélag
Um 15-20 manns hafa nú vetursetu í Árneshreppi. Þar er hvorki verslun né skóli. Elín Agla Briem býr í Norðurfirði en dvelur á Drangsnesi í vetur þar sem dóttir hennar var orðin eina barnið í sveitarfélaginu og gengur því í skóla á Drangsnesi: „Þetta er auðvitað erfið staða, erfitt og miklar tilfinningar í þessu og við vildum geta verið heima og að hérna væri lífi. En það er ekki í boði þennan vetur.“
Hagkvæmni eða fjölbreyttari menning?
Elín Agla segir marga þætti valda því að fólki hafi fækkað í Árneshreppi en þjóðin standi frammi fyrir þeirri spurningu hvort vilji sé til að viðhalda heilsársbyggð í Árneshreppi með tilheyrandi kostnaði. „Viljum við hafa fjölbreytileika í þjóðinni eða viljum við að hagkvæmnin ráði þannig að við gerum meira og meira þéttbýli sem er hagkvæmara og þá einsleitari menning.“
Vilji frekar en framkvæmdir
Síðasta sumar samþykkti Alþingi stefnumótandi byggðaáætlun til að jafna aðstöðumun um land allt. Árneshreppur hefur til að mynda hlotið styrk fyrir verslun. Elín Agla segist ávallt hafa skynjað mikinn vilja ráðamanna til að viðhalda byggð í Árneshreppi, til að mynda með samgöngubótum, en framkvæmdin skili sér síður þótt þúsund ára byggð í Árneshreppi sé í húfi. „Þegar svona samfélög deyja og hætta þá er það gríðalegur missir, ekki bara fyrir fólkið sem er hérna núna heldur líka fyrir söguna og þjóðina í heild,“ segir Elín Agla.
Rætt var við Elínu Öglu í Sögum af landi á Rás 1 og má hlýða á viðtalið í spilaranum efst í færslunni.