Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar, telur að árleg skoðun á bílaleigubílum komi ekki í veg fyrir akstursmælum í þeim sé breytt. Hann telur vænlegra að óháð vottunarfyrirtæki hafi reglulega tilviljanakennt eftirlit með bílaleigum og kanni þessi mál.

Fjallað var um það í fréttaskýringaþættinum Kveik í síðustu viku að akstursmælum í bílum bílaleigunnar Procar hafi verið breytt og látið líta út fyrir að þeim hafi verið ekið minna en raunin var. Margir bílanna voru svo seldir grunlausum kaupendum. Fjallað var um það í sjónvarpsfréttum í gærkvöld að fjöldi fólks, sem hefur keypt bíla af bílaleigum, hafi haft samband við Neytendasamtökin. Fólk vill komast að því hvort átt hafi verið við kílómetramæla. Breki Karlsson, formaður Neytendasamtakanna, telur að skoða þurfi bílaleigubíla árlega. 

Bílaleigubílar voru skoðaðir árlega fram til ársins 2009. Jóhannes Þór segir að í dag séu nýir bílaleigubílar skoðaðir þegar þeir eru fjögurra ára gamlir og svo annað hvert ár eftir það, líkt og reglur ESB kveði á um. „Það er í rauninni ekkert sem segir að til þess að leysa þetta vandamál muni skoðun árlega koma í veg fyrir það. Við teljum að það sem að muni gerast er það að það muni verða íþyngjandi fyrir bílaleigurnar, bæði varðandi kostnað og tilfærslur þannig að við teljum að það þurfi að skoða þetta í öðru samhengi,“ segir hann. 

Í ljósi frétta af Procar hafa Samtök ferðaþjónustunnar hafið undirbúning að því að kanna hvort vænlegt sé að fá vottunarfyrirtæki til að gera eftirlitsúttekt hjá öllum bílaleigum með starfsleyfi. „Við erum búin að ræða þetta við Samgöngustofu sem er meðvituð um það sem við erum að gera. Við ætlum að fá óháð vottunarfyrirtæki til að bjóða upp á slíka vottun.“ Þá yrði kílómetratala skráð við leigu og skil. Bílaleigurnar geti svo lagt slíka vottun fram þegar bílar eru seldir. „Árleg skoðun tekur ekki á þessum vanda sem að við stöndum frammi fyrir núna.“