Árásanna á Hírósíma og Nagasakí minnst

Mynd með færslu
 Mynd: Ævar Örn Jósepsson  -  RÚV
Hundruð friðarsinna söfnuðust saman við Reykjavíkurtjörn í kvöld og minntust fórnarlamba kjarnorkuárásanna á Hírósíma og Nagasaki í ágúst 1945. Íslenskar friðarhreyfingar hafa staðið fyrir samskonar atburðum árlega síðan 1985, ýmist hinn 6. ágúst, daginn sem kjarnorkusprengju var varpað á Hírósíma, eða, eins og í dag, hinn níunda dag ágústmánaðar, en þá var kjarnorkusprengju varpað á Nagasaki.

 Stefán Pálsson, sagnfræðingur og fyrrverandi formaður Samtaka hernaðarandstæðinga, bauð gesti velkomna, síðan flutti Halla Gunnarsdóttir alþjóðastjórnmálafræðingur stutta hugvekju um stríð og frið og loks kveikti fólk á kertum sínum og fleytti út á spegilslétta tjörnina í stafalogni og blíðu til minningar um þau hundruð þúsunda sem fórust í kjarnorkuárásunum tveimur í stríðslok. 

Þá safnaðist friðelskandi fólk á Akureyri og Ísafirði einnig saman í kvöld til að minnast þessara skelfilegu atburða.

Mynd með færslu
 Mynd: Ævar Örn Jósepsson  -  RÚV
Eftir stuttar hugvekjur um stríð og frið kveikti fólk á kertum sínum og fleytti út á spegilslétta tjörnina, til minningar um þá tugi eða hundruð þúsunda almennra borgara sem fórust í kjarnorkuárásunum á Japan 1945