Þann 23. október síðastliðinn voru 20 ár liðin síðan sænska kvikmyndin Árans Åmål - eða Fucking Åmål - var frumsýnd í Svíþjóð.

Kvikmyndin kom leikstjóranum Lukas Moodyson á kortið en hann var 29 ára gamall og myndin var gerð með lágmarkstilkostnaði. Moodyson átti síðar eftir að gera kvikmyndir á borð við Lilya-4-ever, Tillsammans og Vi är bäst. Í myndum sínum átti hann eftir að setja spurningamerki við karlmennsku, heterónorm, feðraveldið og samfélagið eins og það leggur sig. Hann nálgast viðfangsefni sín af alúð, virðingu og djörfung og átti eftir að skrifa nafn sitt í kvikmyndasöguna. En það gat enginn vitað fyrirfram. Fyrirfram var þetta kvikmyndahandrit eftir óþekktan leikstjóra sem bar titilinn Fucking Åmål.

Íbúar Åmål sárir

Åmål er 9000 manna bær í vesturhluta Svíþjóðar. Þegar framleiðsla kvikmyndairnnar hófst var íbúunum ekki hlátur í hug. „Það er ekki eins og við séum húmorslaus,“ sagði einn bæjarpólítíkusinn, „en okkur finnst illa gert að lítillækka smábæ á þennan hátt. Það er nógu erfitt hjá okkur fyrir.“ Stjórnmálamenn bæjarins reyndu hvað þeir gátu til að fá Moodyson til að breyta titlinum, en án árángurs.

Þegar Moodyson sóttist svo eftir að fá skilti sem stendur við bæinn lánað, Velkomin til Åmål. þá fékk hann kalt „nei, gleymdu því karlinn minn“ frá bæjarstjóranum. Kannski ekki að undra. Nú hafa bæjarbúar þó tekið myndina í sátt. Í ár fagnar Åmål 375 ára afmæli sínu og þessi vika er tileinkuð kvikmyndinni. Stjórnmálamenn segja enda með þakklæti í dag að kvikmyndin hafi komið bænum á kortið. Ef myndin hefði ekki verið tekin upp í Trollhättan væri eflaust hægt að fara í Fucking Åmål leiðsögn um bæinn.

Fékk ekki að klára ræðu á verðlaunahátíð

Myndin sló sem sagt rækilega í gegn árið 1998. Gagnrýnendur létu stór orð falla: „Líklega besta mynd sænskrar kvikmyndasögu,“ stóð í Aftonbladet. „Lítið meistaraverk,“ stóð í Svenska Dagbladet. Kvikmyndin var margverðlaunuð á hinum ýmsu kvikmyndahátíðum og fékk meðal annars langflest verðlaunin á Guldbaggen, sem mætti kalla hin sænsku Óskarsverðlaun. Aðalleikkonurnar tvær, Alexandra Dahlström og Rebecca Liljeberg, deildu þar verðlaununum sem besta leikkona í aðalhlutverki.

Þegar hin fimmtán ára Dahlström steig fram til að veita verðlaununum viðtöku tók hún til máls og reyndist þá ekkert minna djörf en persóna hennar Elín frá árans Åmål. „Ég hef ætlað að segja þetta þrisvar sinnum, en nú læt ég vaða,“ segir Alexandra Dahlström. Lukas Moodyson hrópar, „nei!“ - „Nú? Af hverju?“ spyr Dahlström. „Þú veist ekki hvað ég ætla að segja.“ Hann hlær og segir, nei nákvæmlega. Svo heldur hún áfram: „Ég er orðin svo leið á kvenfyrirlitningu og útlitsdýrkun…“ og þá, eins og kallaður úr pytti kvenfyrirlitningar og yfirlætis, stígur Loa Falkman, kynnir kvöldsins, fram og grípur fram í henni: „Jæja, elskan litla,“ - en Dahlström lætur engan bilbug á sér finna. „Ekki lítillækka mig!“ segir hún og klappar honum á kollinn. En Falkman lætur ekki segjast og heldur áfram að tala eins og Dahlström sé ekki til.

Í ár var stemmningin öðruvísi á Guldbagge-hátíðinni. Fimmtíu leikkonur stóðu saman á sviðinu og horfðu þöglar á áhorfendur. Þrjár þeirra stóðu fremst og töluðu. Þær töluðu um mögulega framtíð. Já, margt hefur breyst á 20 árum. Alexandra Dahlström var huguð, fimmtán ára, að hefja upp raust sína, þrátt fyrir að sussað hafi verið á hana áður en hún fékk að tala.

Að vera unglingur í dag er eflaust að allt öðruvísi en fyrir 20 árum, að vissu leyti, en að öðru leyti kannski ekkert svo ósvipað. Það er ennþá einhvers konar limbó á milli æsku og fullorðinsára. Það er ennþá hormónarússíbani, tilfinningatrampólín og ósanngjarnt og erfitt. Það eru ennþá vinsælir krakkar og aðrir sem eru útundan. Og það er nákvæmlega það sem Fucking Åmål fjallar um. Unglingsárin, að vera misskilinn og að læra að skilja sjálfan sig. Og ástina.

Åmål gegnsýrður af gömlum venjum

Heimur unglinganna er þeirra eigin, lokaður fullorðnum og lokaður börnum. Og samt er hann einhvers konar æfingaheimur, eða minni útgáfa af „hinni stóru veröld“ ef svo asnalega mætti orða það. Åmål er ömurlegur bær, Elín vill helst vera blindfull eða fara burt, hún hatar staðinn. En það kemur bænum kannski ekkert við. Åmål er bara tilfallandi lítill staður, sem er gegnsýrður af gömlum venjum. Elín vill eitthvað annað og meira en heterónormatífan hversdagsleikann.

Ein af síðustu senunum í myndinni er eftirminnileg. Elín og Agnes eru lokaðar inni á klósetti. Elín er búin að segja Agnesi að hún sé líka skotin í henni. En nú hafa krakkarnir í árgangnum safnast saman fyrir utan klósetthurðina, banka og segja Elínu að koma út og sýna hvaða strák hún sé með þarna inni. Elín er auðvitað þekkt fyrir að draga drengi á tálar. Agnes hefur engu að tapa, en hún er óörugg gagnvart vinsæla genginu.

Elín hefur öllu að tapa, hún tilheyrir vinsæla genginu, en á sama tíma er staða hennar svo sterk gagnvart krökkunum í skólanum að hún getur ekki tapað. En það sér hún varla sjálf. Hvað eigum við að gera? spyr hún Agnesi. Meintirðu það sem þú sagðir áðan? spyr Agnes til baka. Já. Þá förum við út, auðvitað. Æsingurinn færist í aukana fyrir utan. Þær eru fastar inni. Það er bara ein leið út. Annað hvort verða þær inni á klósettinu til eilífðarnóns, eða þær koma út. Það er ekkert annað í stöðunni.

Og þær koma út.

„ta-da, här är jag. Och här är min nya tjej.“

Þessi sena er svo mögnuð að ég fer eiginlega að gráta þegar ég horfi á hana núna, 20 árum síðar, þær eru svo svalar og hugrakkar. Ég var unglingur þegar ég sá þetta síðast. Nú er ég fullorðin. Ég upplifði þessa mynd alls ekki á sama hátt þegar ég sá hana laust fyrir aldamót, en mér líður eins og unglingi þegar ég sé þetta aftur. Að vera unglingur í dag er eflaust öðruvísi en fyrir 20 árum. Ég hef svo óbilandi trú á þessu unga fólki sem tekur við keflinu í framtíðinni, mér finnst þau hugsandi, fordómalaus og klár upp til hópa.

Unglingar eru snillingar.

Maður veit ekki alveg hvar maður hefur unglinga. Þeir eru sífellt að rannsaka mörkin og stundum koma þeir aftan að manni. Þess vegna eru unglingar svona töff og aðdáunarverðir. Þeir þora meðan aðrir þegja. Framtíðin er þeirra og þeirra að berjast fyrir. Fucking Åmål hitti í mark þegar hún kom út. Hún kom ekki of snemma, hún kom ekki of seint. Margt hefur breyst á 20 árum en ég held að Árans Åmål sé ennþá jafnmikil endemis snilld og hún var árið 1998.