Apple gagnrýnt fyrir meðvirkni í Kína

02.08.2017 - 03:12
Mynd með færslu
 Mynd: iphonedigital  -  Flickr
Bandaríski tæknirisinn Apple er sakaður um að sýna ritskoðunarstefnu kínverskra stjórnvalda meðvirkni með því að fjarlægja svokölluð VPN-smáforrit úr vefverslun sinni þar í landi. Tim Cook, yfirmaður fyrirtækisins, ver ákvörðun Apple hinsvegar með þeim rökum að fylgja þurfi lögum og reglum í hverju landi fyrir sig.

Svokallaður VPN-hugbúnaður, Virtual Private Networks, er oft notaður til að komast undan eftirliti og ritskoðun, sérstaklega í löndum þar sem strangt eftirlit er með netnotkun borgaranna. Þegar Apple fjarlægði nýverið smáforrit, sem notar VPN-hugbúnað, úr vefverslun sinni í Kína var fyrirtækið gagnrýnt fyrir að verða við kröfum stjórnvalda og styðja þar með við ritskoðunarstefnu þeirra. Bann við VPN-hugbúnaði ógnar málfrelsi og borgaralegum réttindum þar í landi er haft eftir fyrirtækinu ExpressVPN á vef breska ríkisútvarpsins.

Talsmenn Apple segja að þótt þeir séu ósammála stefnu kínverskra stjórnvalda þurfi þeir engu að síður að fylgja kínverskum lögum. Þá sagði yfirmaður fyrirtækisins, Tim Cook, að hann vildi augljóslega ekki þurfa að fjarlægja forrit úr vefverslun Apple. Hann voni að kínversk stjórnvöld dragi boð sín og bönn smám saman í land.

Apple gaf út nýja ársfjórðungsskýrslu í gær. Fyrirtækið er í sókn víðast hvar í heiminum nema í Kína. Gróði fyrirtækisins jókst um tólf prósent á liðnum ársfjórðungi og nemur því um 8,7 milljörðum dollara eða meira en 900 milljörðum króna. Aukningin er vonum framar, segir í frétt AFP. Þess má geta að fyrirtækið seldi um 41 milljón iPhone-síma á tímabilinu. Hinsvegar virðist Apple eiga erfitt uppdráttar í Kína þar sem heildartekjur drógust saman um tíu prósent miðað við sama tímabil í fyrra, samkvæmt frétt BBC.

Matthías Tryggvi Haraldsson
Fréttastofa RÚV