„Við erum að koma inn með okkar orku og anda í þennan heim hér í safninu,“ segir Olga Bergmann, en hún og Anna Halin hafa komið nokkrum videoverkum fyrir í Listasafni Einars Jónssonar á sýningu sem þær kalla Andsetning. „Þetta er einhvers konar núningur og samtal þar sem við komum með okkar kvenlegan, nettan feminískan þráð inn í þessa karllægu myndveröld.“

Sýningin Andsetning er samstarfsverkefni Önnu og Olgu og safns Einars Jónssonar. Listakonurnar hafa komið einu rýmistengdu vídeóverki fyrir í hverjum sal innan um hinar áhrifamiklu höggmyndir Einars.  Verkin eru þannig eins konar samleikur við höggmyndir Einars og Hintbjörg, þessa mögnuðu byggingu sem var byggð fyrir list hans og er fyrsta listasafnið á Íslandi, vígt á Jónsmessudag 1923.  

Samtal ólíkra tíma

Þær Olga og Anna segja það hafa verið nokkuð snúið að vinna verk inn í safnið.  „Niðurstaðan varð samt fljótlega sú að við ætluðum að nota video. Þetta er svo þéttofinn heimur hérna inni, þannig að við sáum að það gekk ekki að koma hingað inn með eitthvað efnismikið, þrívítt eða þungt,“ segir Anna Halin.  

„Þetta er auðvitað mjög „statískur“ heimur hér inni,“ bætir Olga við. „Hann virkar heldur ekki mjög aðgengilegur svo að við höfum svona aðeins viljað hræra í andrúmsloftinu með þessum verkum okkar.“

Í ýtarlegu viðtali við Önnu og Olgu hér að ofan má heyra þær ræða verk sín og samhengi þeirra við verk Einars á þessari forvitnilegu sýningu. Andsetning stendur yfir í Listasafni Einars Jónssonar á Skólavörðuholti til 3. mars.