Andlitsgreining í snjalltækjum og á samfélagsmiðlum vekur upp spurningar um persónuvernd og það hvernig upplýsingarnar eru notaðar, segir Helga Þórisdóttir, forstjóri Persónuverndar.
Þessi tækni gerir tækjum og samfélagsmiðlum kleift að greina og þekkja andlit fólks og kemur í staðinn fyrir hefðbundin lykilorð eða fingrafaraskanna. Það þarf ekkert annað að gera en að líta í símann, til að til dæmis skrá sig inn á heimabankann.
Helga Þórisdóttir, forstjóri Persónuverndar segir að andlitsgreining skapi enn eina víddina í vinnslu persónuupplýsinga. „Hver einasta rafræna myndataka sem unnið er með rafrænt, felur í sér að það er hægt að halda áfram með vinnslu og oftast án þess að fólk viti sem hefur verið andlitsgreint. Þetta skapar margvísleg álitaefni í persónuverndarumhverfinu,“ segir Helga.
Helga segir jafnframt að Íslendingar, eins og aðrir, geti orðið fyrir neikvæðum áhrifum andlitsgreiningartækni. „Möguleiki tækninnar á að vinna nærgöngular upplýsingar út frá andlitinu okkar eru gríðarlegir. Það er nú bara þannig að það eru ekki allir sem ná að vera með svokallað pókerfeis. Svipbrigði andlitsins segja okkur oftast miklu meir heldur en mörg orð. Þetta eru atriði sem fyrirtæki eru farin að vinna með, án þess að við vitum um það,“ segir Helga.
En er þessi tækni nógu örugg? Árið 2017 birtist myndband á Youtube sem sýndi að Samsung-sími var opnaður með hágæða ljósmynd af eiganda símans. Enn fremur er fréttastofu kunnugt um að systkini hafi getað opnað síma hvors annars með andlitsgreiningu.
„Nú er aðgangur að líkamsræktarstöðvum orðinn þannig að þú þarft að horfa í auga til að fá aðgang. Þannig við erum þegar byrjuð að sjá ákveðna notkun og þá er spurningin - hvernig er öryggi slíkra persónuupplýsinga háttað hjá viðkomandi fyrirtæki? hvað ef óprúttnir aðilar komast inn í þetta og hvað er hægt að gera með þessi gögn?“ segir Helga jafnframt.