Árlega fara um hundrað manns í meðferð við offitu á Reykjalundi. Konur eru í miklum meirihluta. Kona sem hóf meðferð fyrir rúmum fjórum árum segir mikilvægt fyrir þá sem glíma við offitu að gera sér grein fyrir því hvað olli því að þeir misstu tökin á þyngdinni.

„Það var árið 2010 að ég var komin með sykursýki II, áunna sykursýki, að ég í raunni bið lækninn minn um að sækja um að komast hingað á Reykjalund. Þannig að það var svona fyrsta skrefið,“ segir Gróa Axelsdóttir um sína reynslu.

Átak að fara frá fjölskyldunni
Meðferð vegna offitu hefur verið í boði á Reykjalundi frá árinu 2001. Árlega hefja 90 til 110 manns slíka meðferð. Gróa, sem er aðstoðarskólastjóri í Njarðvík, leitaði til offitusviðsins 2010 og var lögð inn í fimm vikna meðferð haustið 2011.

„Ég mætti hér á mánudegi í september og fór aftur heim á föstudegi. Það var visst átak að fara í burtu frá fólkinu en ég fékk að gista hér en um leið náttúrulega tækifæri til þess að breyta öllu,“ segir Gróa. „Það var ekkert í skápunum til þess að leita eftir en maður valdi sér líka að keyra ekki annað og kaupa sér sælgæti eða eitthvað annað. Þú varst í prógrammi frá átta á morgnana til klukkan fjögur á daginn. Og það hjálpar rosalega.“

Gróa Axelsdóttir fyrr og nú.

Konur fjölmennastar
Stærstur hluti þeirra sem leita til Reykjalundar vegna offitu eru konur eða þrír af hverjum fjórum sjúklingum. Þeir sem standa að meðferðinni segja gríðarlega mikilvægt að veita þess heilbrigðisþjónustu, enda geti offita leitt til þess að fólk verði óvinnufært og þá er hætta á frekari sjúkdómum mikil.

Þarf að breyta um hugsunarhátt
Gróa segir meðferðina snúast að miklu leyti um að finna út hvað valdi því að fólk missi stjórni á þyngd sinni. „Helst er það að breyta um hugsunarhátt, finna veikleikana sína, hvað var það sem að varð til þess að ég missti stjórn á þyngdinni minni og heilsunni minni og bara læra á lífið og tilveruna þannig að maður sé heilbrigður.“

Hreyfing og mataræði eiga svo að sjálfsögðu stóran þátt í meðferðinni. „Það sem að er svo frábært er að þú átt ekki að taka neitt út. Maður á að reyna að velja betri kost og passa stærðirnar. Ég skrifaði matardagbók,“ segir Gróa. „Þú færð alveg út hvað þinn líkami þarf af hitaeiningum á dag - svo er það okkar val hvernig við spilum úr þeim.“

Gróa segir að mataræðið þurfi mikið skipulag - og það á líka við utan heimilisins. „Ég reyni að skipuleggja alveg hvað ég er með í nesti og hvað ég er með í hádegismat. Í dag er það til dæmis mandarína í kaffinu og skyr og kex með kotasælu.“

Gróa segir að þetta hafi verið mikil vinna í fyrstu: „En um leið og maður er kominn í gírinn og ákveður bara alltaf fyrirfram hvað ég ætla að borða - þá er þetta ekkert mál.“

Fólk á æfingu í sundlauginni á Reykjalundi.

„Þú ert miklu skemmtilegri núna manna“
Gróa hefur lést um 40 kíló frá upphafi meðferðarinnar en segir andlegan ávinning ekki síðri en það að léttast. „Með allri hreyfingunni þá færðu svo mikið af góðum hormónum að þú verður miklu glaðari og ánægðari. Og þegar maður nær markmiðum sínum - þá er þetta miklu skemmtilegra. Lífið verður bara miklu skemmtilegra. Strákurinn minn sem er 14 ára sagði við mig eftir þessa 5 vikna innlögn - þú ert miklu skemmtilegri núna mamma en áður en þú fórst - þú varst samt ekkert leiðinleg. Auðvitað er maður glaðari og hamingjusamari.“