Fangar sem veikjast andlega eru vistaðir áfram í fangelsum vegna skorts á úrræðum. Í sumum tilfellum fá þeir ekki reynslulausn því þeir eru hættulegir sér og umhverfi sínu samkvæmt því sem kom fram á Vísi í gær.

Enginn geðlæknir starfar í fangelsunum og erfiðlega hefur gengið að fá viðunandi þjónustu fyrir fanga sem veikjast andlega í afplánun, það því er Vísir greindi frá í gær.

Staðan hefur síst farið batnandi á undanförnum árum, að sögn Páls Winkel, fangelsismálastjóra. „Þetta er eina verkefnið sem við höfum ekki náð neinum árangri í á síðustu árum. Pyntingarnefnd Evrópuráðsins gerir við þetta athugasemdir reglulega og það fer að styttast í að hún komi aftur og þar verða engar breytingar,“ sagði Páll í viðtali í Morgunútvarpinu á Rás 2 í morgun. Önnur mál innan fangelsanna hafi verið færð í betra horf, til dæmis hafi félagsráðgjöfum og sálfræðingum nýlega verið fjölgað. Að öðru leyti hafi ekkert gerst í þeim málum er snúa að föngum sem glíma við alvarleg andleg veikindi. 

Sigmar Guðmundsson, þáttastjórnandi Morgunútvarpsins, nefndi við Pál að þessi mál hafi verið rædd í mörgum viðtölum í fjölmiðlum undanfarin ár. Páll sagði það rétt og að þeir sem hafi verið rætt um fyrir nokkrum árum væru nú látnir. 

Lítið breytist þrátt fyrir skýrslur og starfshópa

Misjafnt er hve margir andlega veikir fangar eru í fangelsum hér á landi á hverjum tíma. Páll segir að stundum séu það tveir til þrír. Staða þeirra geti breyst mjög hratt, fari þeir til dæmis í geðrof. Þá geti þeir skaðað sjálfa sig og aðra. Það líði varla sá fundur fangavarða að ekki sé rædd staða andlega veikra fanga. „Við vitum ekkert hvað við eigum að gera. Þetta er bara staðan og hún breytist ekki neitt.“ Skýrslur séu skrifaðar og hópar settir saman en þrátt fyrir það gerist ekkert. „Við lítum svo á að menn séu það veikir að það þurfi að koma þeim annað.“

Telur að fangar séu aftarlega í forgangsröðinni

Aðspurður um svör ríkisins, segir Páll að svo virðist sem fólk sé ekki sammála um leiðir. Annað slagið verði þó vakning. „Ég er að vona að hún eigi sér stað vegna umfjöllunar um sanngirnisbætur nú. Ég held að þetta verði svipað einn daginn og samfélagið muni ekki sætta sig við þetta. Svörin eru að það sé verið að vinna í þessu, en það sé skortur á rýmum.“ Þá vilji fólk að það séu fangaverðir með andlega veikum föngum sem dvelji í öðrum úrræðum. „Viljinn er til staðar, peningar eru takmörkuð auðlind og það þarf að forgangsraða. Ég held að föngunum sé ekki forgangsraðað mjög hátt.“ Úrræði eigi að vera í kerfinu fyrir veika einstaklinga, hvort sem þeir séu fótbrotnir eða geðveikir.

Þau tilvik hafa komið upp að fangar séu það veikir að ekki sé hægt að veita þeim reynslulausn. Páll nefnir dæmi um fanga sem hafi framið sams konar brot. Annar fái reynslulausn en ekki hinn veiki, sá sé látinn ljúka afplánun dóms, þar sem ekki sé til neinn dvalarstaður fyrir hann.