Hver er andi miðbæjar Reykjavíkur? Hefur okkur tekist að varðveita söguna, finna tengingu til fortíðar, með nýbyggingum víða í miðborginni. Fjallað um anda Reykjavíkur í Flakki á laugardag kl. 15:00 á Rás 1.

Mikilvægi staða

Hjörleifur Stefánsson arkitekt gaf út bók sem ber titilinn Andi Reykjavíkur árið 2008. Síðan þá hefur margt breyst í borginni, mikið verið byggt eða er á lokametrunum, sérstaklega er þetta áberandi í miðborginni. Hjörleifur vill meina að við tengjum ekki nægilega við menningar- og byggingasögu okkar þegar skipulagt og byggt er í samtímanum. Hvers hagsmuna er verið að gæta við ákvörðun hótelbyggingar í Víkurgarði, sem er elsti kirkjugarður Reykjavíkur. 

Á göngu um Aðalstræti, Vesturgötu og Norðurstíg fer Hjörleifur yfir bygginga- og menningarsögu borgarinnar.

Leyniport við Norðurstíg

Í bakgarði við Norðurstíg leynast 5 hús, þrjú þeirra tilheyra Norðurstíg en tvö Nýlendugötu. Fáir eiga leið þarna um, enda falið bakvið húsin í Geirsgötu og Vesturgötu. Þarna hefur Halla Dögg Önnudóttir holað sér niður með fimm börn og eiginmann. Húsið var til sölu árið 2000, en þá leigðu þau hjónin litla kjallaraíbúð í Grjótaþorpinu, þau slógu til og keyptu tvær hæðir í húsi númer 5 við Norðurstíg, og vilja hvergi annars staðar vera.