Jón Þór Hauksson, landsliðsþjálfari Íslands, segir að margt hefði mátt betur fara á Algarve-æfingamótinu í Portúgal en er þó sáttur við öruggan sigur Íslands gegn Portúgal í dag. Sérstaklega er Jón Þór ánægður með innkomu Margrétar Láru Viðarsdóttur og Dagnýjar Brynjarsdóttur í liðið.

„Það er klárt mál að það eru atriði hérna sem við getum gert betur í þessu móti. En það er frábært að ná þessum sigri í síðasta leiknum og virkilega öflug frammistaða hjá liðinu í heild sinni. Mér fannst við taka yfirhöndina strax frá byrjun og við héldum henni út.“ segir Jón Þór Hauksson, landsliðsþjálfari Íslands um leik dagsins. Þá segir Jón Þór frábært að fá Dagnýju Brynjarsdóttur og Margréti Láru Viðarsdóttur aftur inn í liðið.

„Auðvitað er stórkostlegt að sjá Dagnýju og Margréti Láru koma hérna inn á, Dagný að leggja markið upp fyrir Margréti Láru og sjá Margréti leggja svo upp fyrir Svövu [Rós Guðmundsdóttur], sem er að skora sitt fyrsta landsliðsmark og Selma [Sól Magnúsdóttir] gerir það líka. Þannig að þetta var frábær frammistaða hjá liðinu í dag og við erum bara virkilega ánægð með það.“ segir Jón Þór.

Gott að vinna sterkt lið Portúgala sannfærandi

Margrét Lára Viðardóttir fór með landsliðinu til Algarve en hún hafði fyrir mótið ekki spilað landsleik síðan árið 2017. Hún kom inn á sem varamaður í dag, líkt og gegn Skotum á mánudag, en hún skoraði í leiknum sitt fyrsta landsliðsmark síðan árið 2016.

„Portúgalska liðið er náttúrulega búið að bæta sig gríðarlega mikið undanfarin ár og þetta var erfiður andstæðingur að spila við. En við náðum að skora snemma leiks, strax á annarri mínútu þannig það gaf okkur mikinn kraft inn í leikinn.“ segir Margrét Lára Viðarsdóttir eftir leikinn. Dagný Brynjarsdóttir sem lagði mark Margrétar Láru upp tók í sama streng.

„Portúgal er með mjög sterkt lið og það er langt síðan við spiluðum við þær seinast. En mér fannst við bregðast mjög vel við. Við gerðum vel það sem við ætluðum að gera, við vorum þéttar varnarlega og gaman að ná að skora fjögur mörk á þær. Við sköpuðum fleiri færi en við höfum gert í mótinu og það er sterkt að skora fjögur mörk. Mér fannst sóknarleikurinn góður í dag, og varnarleikurinn, bara heilt yfir mjög flott.“ segir Dagný Brynjarsdóttir um leik dagsins.

Ummæli þeirra Jóns, Margrétar og Dagnýjar má sjá í spilaranum að ofan.

Hér má sjá öll helstu atvik leiksins.