Amnesty biður Iggy Pop afsökunar

25.06.2014 - 01:47
Bandaríski tónlistarmaðurinn Iggy Pop hefur fengið opinbera afsökunarbeiðni frá Frakklandsarmi mannréttindasamtakanna Amnesty International. Samtökin notuðu mynd af kappanum í leyfisleysi og gerðu honum upp þá skoðun að honum sé meinilla við Justin Bieber.

Samtökin notuðu mynd af Pop í herferð sem er beint gegn pyntingum. Á myndinni af Pop má lesa franska textann „l'avenir du rock n'roll, c'est Justin Bieber,“ sem gæti útlagst sem „Justin Bieber er framtíð rokktónlistarinnar.“

Iggy Pop er þekktur sem einn af frumkvöðlum pönk-tónlistarsenunnar sem söngvari hljómsveitarinnar The Stooges á 7. og 8. áratug síðustu aldar. Amnesty gerði því skóna að Pop myndi aldrei nokkurn tímann segja að táningsstjarnan Bieber væri framtíð rokktónlistarinnar, nema þá ef til vill ef hann hefði verið pyntaður. 

Í ljós kom að mannréttindasamtökin notuðu tölvugerða mynd af Pop í leyfisleysi og þar að auki lét hann umrædda skoðun á Bieber aldrei í ljós. 

Í opinberri afsökunarbeiðni Amnesty kemur fram að það hafi aldrei verið ætlunin að gera Pop upp skoðanir. Um var að ræða skilaboð sem áttu að vera kaldhæðnisleg til að hafa áhrif á hugmyndir fólks um pyntingar, en samkvæmt Amnesty telur rúmlega þriðjungur jarðarbúa pyntingar vera réttlætanlegar í sumum tilfellum.