HS Orka brást ekki við ábendingum starfsmanns um gasmengun í neysluvatni við Reykjanesvirkjun árið 2013. Þetta er á meðal orsaka banaslyss sem varð við virkjunina í fyrra, samkvæmt niðurstöðum Vinnueftirlitsins. Neysluvatnstengingar voru ekki ásættanlegar, öryggiskerfi ófullnægjandi og húsnæði sem mennirnir gistu í var ósamþykkt. Forstjóri HS Orku viðurkennir að mistök hafi verið gerð.

Brennisteinsvetni gaus úr einni af borholum Reykjanesvirkjunar aðfaranótt föstudagsins 3. febrúar í fyrra og barst í neysluvatnskerfi svefnskála þar sem tveir starfsmenn Háteigs fiskverkunar dvöldu. Svefnskálinn var á athafnasvæði virkjunarinnar, en HS Orka dreifði neysluvatni þangað. Tveir menn bjuggu í skálanum. Annar þeirra, Pólverji á fimmtugsaldri, lést í slysinu. Hinn maðurinn var fluttur á sjúkrahús en var útskrifaður síðar sama dag. Vinnueftirlitið rannsakaði slysið og hefur nú skilað niðurstöðum.

Í skýrslunni segir meðal annars að slysið hafi uppgötvast þegar mennirnir mættu ekki til vinnu um morguninn. Mikil hveralykt hafi verið inni í skálanum þegar að var komið og því strax talið líklegt að slysið tengdist brennisteinsvetnismengun í húsinu. Brennisteinsvetni er eitruð lofttegund sem getur verið banvæn ef hún fer yfir ákveðin mörk. Strax vaknaði grunur um að slysið tengdist því að sírennsli var í klósetti í skálanum. Í ljós kom að mengunina mátti rekja til einnar borholu HS Orku á svæðinu. Ekki var verið að nota hana til rafmagnsframleiðslu þegar slysið varð og til að halda henni kaldri var vatni úr neysluvatnskerfi svæðisins látið renna í holuna. Þetta var gert með því að tengja hana beint inn á neysluvatnskerfið og því var bein leið fyrir gas úr borholunni inn í kerfið.

Brugðust ekki við

Þá kom í ljós að lögn úr plasti sem var notuð til að veita vatni að holunni hafði skemmst við að heitt gas fór um hana. Hitamælir sem tengdur er við holuna sýndi að hiti jókst mikið, en öryggisstjórnkerfi HS Orku brást ekki við því. 

Þá segir í skýrslunni að svipað atvik hafi komið upp árið 2013, þegar starfsmaður HS Orku tilkynnti að gas hefði komist frá sömu borholu inn á sama kaldavatnskerfi. Starfsmaðurinn kallaði eftir því að betur yrði gengið frá öllum vatnsflutningi. Í skýrslunni segir að það sé því ljóst að HS Orka þekkti til áhættuþáttarins en hafi ekki brugðist við með fyrirbyggjandi aðgerðum.

Niðurstaða Vinnueftirlitsins er sú að grundvallarorsök slyssins sé sú að tenging var á milli kaldavatnskerfis svæðisins og borholunnar sem leiddi til þess að brennisteinsvetni barst með vatnslögnum inn í skálann. Sú tenging hafi ekki átt að vera til staðar og hafi ekki verið ásættanleg með tilliti til öryggis né í samræmi við reglur um neysluvatnskerfi.

Einnig kemur fram að öryggisstjórnkerfi HS Orku hafi ekki verið fullnægjandi, þrýstingsmælir hafi ekki virkað sem skyldi og að ekki hafi verið búið að uppfæra áhættumat í samræmi við atvikið sem átti sér stað árið 2013.

Mikil ábyrgð

„Í fyrsta lagi eru viðbrögð okkar við þessum hræðilega atburði að þetta er hörmulegt og óheppilegt. Og hugur okkar og samúð er hjá fjölskyldum þess sem varð fyrir slysinu,“ segir Ásgeir Margeirsson, forstjóri HS Orku.

„Við höfum bætt úr öllum þeim ábendingum sem fram hafa komið, við höfum breytt verklagi, við höfum skapað nýtt starf til þess að vakta ákveðna þætti sem komu að þessu máli líka. Fyrirtækið er í dag vottað með rekstrarstjórnunarkerfi í gæðamálum, umhverfis- og öryggismálum. Og við höfum tekið þessu mjög alvarlega og gert allt sem í okkar valdi stendur til að svona nokkuð eða eitthvað í þessa líkingu geti nokkurn tímann gerst aftur. Það urðu mistök sem leiddu til þessa hörmulega atburðar, reyndar röð atvika, sem sum hver snúa að okkur, önnur ekki. Og við höfum tekið fulla ábyrgð á okkar þætti málsins og unnið samkvæmt því.“ 

Er ekki ljóst að mjög alvarleg mistök voru gerð þegar neysluvatnslögn var tengd inn á borholuna? 

„Það kom í ljós við það að þetta gerist að það hefði þurft að gera það öðruvísi og því var breytt strax. Það er einn af þeim þáttum sem hefðu getað komið í veg fyrir þetta en þeir voru líka margir fleiri.“

En nú uppgötvaði starfsmaður ykkar nákvæmlega eins tilvik árið 2013 og hvatti til þess að úrbætur yrðu gerðar – hvers vegna var það ekki gert? 

„Það voru mannleg mistök sem urðu til þess að við því var ekki brugðist í tæka tíð. Og ekki höfum við nú bara brugðist við því heldur breytt okkar verklagi og sérstaklega sett upp nýtt starf til þess að vakta það að svona hlutir fari ekki framhjá, að þegar ábendingar eru skráðar, þá eru það ekki bara ábendingar heldur verða það verkbeiðnir og þær deyja ekki fyrr en þeim er lokið.“

En var það ekki vítavert að bregðast ekki við því, hefði það ekki mögulega komið í veg fyrir þetta hörmulega slys?

„Ég vil ekki segja til um það hvort það hafi verið vítavert. Svona lagað hefur verið gert áður en er komið í ljós af reynslu að er ekki nógu tryggilegt. Og verklaginu hefur verið breytt.“

Verður einhver dreginn til ábyrgðar vegna þessa máls?

„Það er ekki mitt að svara því.“

Hvers er að svara því?

„Væntanlega rannsakenda eða yfirvalda.“

En innan fyrirtækisins, verður einhver dreginn til ábyrgðar þar?

„Það er ekki komið þangað.“

Gæti það farið svo?

„Ég er ekki viss um það.“

En hver er þín ábyrgð sem forstjóra?

„Hún er mikil og ég geri mér fulla grein fyrir því. Þetta tiltekna mál sem þú vísar til átti sér stað áður en ég tók við núverandi starfi. Mér var ekki kunnugt um það fyrr en það kom í ljós í okkar rannsókn.“

Þá áttu við tilvikið árið 2013?

„Já. Þá var ég ekki starfandi hjá fyrirtækinu. Enda gæti ég ekki sinnt því starfi sem ég er ráðinn til þess að sinna ef ég væri að vakta þess háttar atriði í flóknu fyrirtæki. Framtíðin verður að leiða í ljós hvort einhver ber ábyrgð á þessu.“

Hafið þið sett ykkur í samband við fjölskyldu hins látna eða kemur til greina að greiða bætur vegna þessa slyss?

„Ekki beint í samband. Málið er í höndum okkar tryggingafélags. Og við berum fulla virðingu fyrir þeim þætti málsins einnig.“

Þannig að það kemur til greina að borga einhverjar bætur?

„Það tel ég vera, já,“ segir Ásgeir.

Þær upplýsingar fengust frá sviðsstjóra umhverfissviðs Reykjanesbæjar í dag að skálinn sem verkamennirnir gistu í hafi ekki verið samþykktur sem íbúðarhúsnæði. Ólafur Helgi Kjartansson, lögreglustjóri á Suðurnesjum, sagði í samtali við fréttastofu í dag að sá þáttur málsins verði skoðaður. „Það fellur undir það sem ég sagði áðan að það eru fleiri þættir sem koma að þessu máli sem eru utan okkar umráðasviðs. Og ég get ekki tjáð mig neitt um það,“ segir Ásgeir, en skálinn var inni á svæði fiskverkunarinnar.