Bílslys sem verða með þeim hætti að ökumaður sofnar undir stýri er fjóra algengasta orsök banaslysa í umferðinni hér á landi, að sögn Sigrúnar A. Þorsteinsdóttur, sérfræðings í forvörnum hjá VÍS. Hún segir að staðan sé sú sama erlendis.

„Þetta eru ansi algeng slys og þau eru svo alvarleg því að ökumaður bregst ekki við á neinn hátt,“ sagði Sigrún í viðtali í Síðdegisútvarpinu á Rás 2 í dag. Ökumenn geti ekki gert neitt til að koma í veg fyrir útafakstur eða árekstur þegar þeir séu sofandi og áverkarnir séu oft mjög alvarlegir; örorka eða jafnvel dauði. 

Þessi slys eru jafnvel alvarlegri en slys sem verða vegna hraðaksturs, að sögn Sigrúnar. Vakandi ökumaður sem ekur hratt getur bremsað og brugðist við. Það sama eigi þó ekki við um ofsaakstur. Allir geta sofnað undir stýri en tölfræðin sýnir að fólk sem vinnur vaktavinnu sé í meiri hættu en aðrir, sérstaklega þegar fólk nær bara þriggja til fjögurra tíma svefni. Eins sé hætta fyrir atvinnubílstjóra sem aki langar vegalengdir. Það sé ástæða fyrir reglum um hvíldartíma atvinnubílstjóra, að sögn hennar. Mikilvægt sé að fólk hlusti alltaf á líkamann þegar það finnur fyrir þreytu við akstur og hvíli sig, leggi sig í nokkrar mínútur, drekki orkudrykk eða grípi til annarra ráða vekja það upp.