„Þetta er skemmtilegur dagur að því leyti að nánast allir kúnnarnir mínir koma við og kaupa kannski eina plötu,“ segir Reynir Berg Þorvaldsson í Reykjavík Record Shop en alþjóðlegi plötubúðadagurinn er haldinn hátíðlegur í tólfta sinn í dag.
Dagurinn var fyrst haldinn til að styðja við sjálfstæðar plötubúðir sem margar hverjar réru lífróður vegna minnkandi geisladiskasölu. Á undanförnum áratug hafa langflestar stóru plötubúðakeðjurnar horfið af aðalgötunum en litlar sérhæfðar plötubúðir lifa hins vegar góðu lífi. Í miðborg Reykjavíkur eru til að mynda fimm slíkar sjálfstæðar plötubúðir, verslanir sem gera út á það eitt eða fyrst og fremst að selja plötur – 12 tónar, Smekkleysa, Lucky Records, Geisladiskabúð Valda og Reykjavík Record Shop. Bæði sögulega og í samanburði við aðrar borgir af svipaðri stærðargráðu hlýtur staðan í Reykjavík í dag að teljast ansi góð.
„Það er kannski sirka fjórum búðum of mikið,“ segir Reynir Berg Þorvaldsson, eigandi Reykjavík Record Shop, og hlær. „Nei, það eru nú allir félagar í þessum plötubúðum.“ Hann segir að útlendingar sem koma í búðina tali stundum um að þeir komi frá borgum með meira en milljón í mannfjölda og þar sé bara ein plötubúð eftir. „Þeim finnst alveg ótrúlegt að það séu fimm plötubúðir í ekki stærri bæ en þetta – það er alveg frekar magnað,” segir Reynir. „Ég held að Íslendingar séu nokkuð duglegir við að kaupa tónlist miðað við aðrar þjóðir.“
Reykjavík Record Shop er yngsta verslunin í reykvísku plötubúðaflórunni. Reynir stofnaði verslunina í október 2014 og náði þannig að sameina vinnuna og sitt helsta áhugamál, vínylgrúsk og -söfnun. „Þetta er náttúrulega pínulítið rugl, svolítið eins og að opna vídeó-leigu eða eitthvað – en hefur gengið í fjögur og hálft ár.“
Reynir lærði sögu í háskóla og segir sagnfræðina oft vera gagnlega þegar spáð er í plötur. Hann leggur mikla áherslu á að skapa afslappað andrúmsloft í búðinni og að starfsfólkið viti mikið um plötur svo það geti mælt með réttu tónlistinni fyrir hvern og einn. Úrvalið í búðinni er breitt enda væri erfitt að reka mjög sérhæfðar plötubúðir vegna fámennisins hér á landi. „Það væri erfitt að láta reggí- eða djassbúð ganga. Maður þarf að reyna að sinna öllum, reyna að hlusta á hvað fólk vill, fyrir hverju fólk er spennt, áður en platan kemur, hvort það sé spenna í kringum hana, og vera þá kominn með hana.“
Gestir búðarinnar eru alls konar en stærsti hlutinn fastagestir sem koma aftur og aftur. „Þetta er fólk sem á spilara og er að safna plötum. En mér finnst alltaf skemmtilegt þegar það koma ungir krakkar, hafa kannski fengið spilara í fermingargjöf og eru að koma að kaupa fyrstu plöturnar. Það er eiginlega skemmtilegast að finna fyrstu plöturnar fyrir fólk, kannski einhverja algjöra klassíkera sem þarf að eiga. En svo er þetta alveg yfir í eldri menn sem eru komnir á eftirlaun og eru bara heima að njóta og hlusta á tónlistina sína, eru kannski að kaupa aftur gömlu plöturnar sem eru kolrispaðar heima eða sem voru lánaðar í partýi og hurfu.“
Reykjavík Record Shop tekur þátt í alþjóðlega plötubúðadeginum, bæði með sölu á sérstökum viðhafnarútgáfum af ýmsum plötum, auk eigin útgáfu en búðin stendur fyrir útgáfu á 10 tommu plötu með tónlistarmanninum TSS í mjög takmörkuðu upplagi, aðeins 50 eintökum. „Í Bandaríkjunum sérstaklega og Bretlandi er þetta alveg svakalega stór dagur. Árið hjá plötubúðunum veltur á því að þessi dagur verði brjálaður. Það myndast raðir fyrir utan um búðirnar um nóttina og svoleiðis, en hérna er þetta afslappaðra, engar raðir en rosa mikið að gerast samt.“