Ríkisstjórnin hyggst leggja til að bætur almannatrygginga hækki ekki í samræmi við verðlag á næsta ári heldur hækki þær um 3,5 prósent þó spáð sé talsvert meiri verðbólgu.
Bætur almannatrygginga eiga ekki að hækka í samræmi við verðlag á næsta ári eins og þó er gert ráð fyrir í lögum. Ríkisstjórnin mun leggja til við Alþingi að bætur almannatryggingakerfisins hækki minna.
Samkvæmt lögum eiga bætur almannatryggingar, þeirra á meðal örorkubætur og ellilífeyrir að hækka í samræmi við launaþróun en þó aldrei minna en verðlag hækkar samkvæmt vísitölu neysluverðs.
Bætur almannatrygginga hækkuðu á þessu ári með hliðsjón af hækkun lægstu launa í kjarasamningum. Verðlag hefur hins vegar hækkað um 5,7 prósent síðustu tólf mánuði og Seðlabankinn spáir að verðlag hækki um nærri fimm prósent á næsta ári.
Þrátt fyrir það eiga bætur almannatrygginga ekki að hækka svo mikið. Samkvæmt fjárlagafrumvarpi verða bætur almannatrygginga hækkaðar um 3,5 prósent. Með öðrum orðum, þá ætlar ríkisstjórnin að aftengja verðtryggingu almannatrygginga.
Guðmundur Magnússon, formaður Öryrkjabandalags Íslands, segir þetta ekki koma á óvart. Þetta hafi ríkisstjórnin gert ítrekað undanfarin ár. „Það var talað um það þegar skerðingarnar dundu á okkur að þegar landið færi að rísa þá myndu öryrkjar og ellilífeyrisþegar fyrstir finna fyrir því. Nú vilja menn aldeilis halda því fram að landið sé byrjað að rísa eftir því sem manni heyrist á forsætisráðherra og fjármálaráðherra,“ sagði Guðmundur í sjónvarpsfréttum RÚV í kvöld. Hann telur ríkisstjórn sem kennir sig við norræna velferð ekki standa undir nafni.
Í lögum um almannatryggingar segir: „Bætur almannatrygginga [...] skulu breytast árlega í samræmi við fjárlög hverju sinni. Ákvörðun þeirra skal taka mið af launaþróun, þó þannig að þær hækki aldrei minna en verðlag samkvæmt vísitölu neysluverðs.“