Hörður Jóhannesson aðstoðaryfirlögregluþjónn furðar sig á því að sakborningar í Guðmundar- og Geirfinnsmálum, sem hafi skáldað sögur í gæsluvarðhaldi vikum saman, séu teknir trúanlegir. Hann segist ekki tilbúinn til að hlusta á nýlegar kenningar um að rannsókn lögreglu hafi verið ábótavant.

Hörður var gestur Síðdegisútvarpsins á Rás 2 í gær. Þar talar hann máli þeirra lögreglumanna sem rannsökuðu hvörf Guðmundar Einarssonar og Geirfinns Einarssonar. Hörður segir mikilvægt að gera skýran greinarmun á málunum tveimur. 

„Allt saman tilbúningur frá upphafi“

Hörður segir að það megi alls ekki rugla saman því sem hafi verið nefnt ætlað harðræði og harkalegar aðferðir. Búið sé að fjalla um það og komin skýr niðurstaða. Það sé eitt en efnisatriði málsins annað. „Auðvitað vilja menn trúa þegar fólk kemur fram og ber af sér sakir og fer að reyna að leiðrétta, þá vilja menn trúa því en menn gleyma ýmsum staðreyndum eins og til dæmis því að það voru nokkrir í hópi sakborninga sem sammæltust um, þrátt fyrir einangrun í gæsluvarðhaldi, gátu búið til sögu sem leiddi til þess að fjórir alsaklausir menn sátu í gæsluvarðhaldi í 105 daga, allt saman tilbúningur frá upphafi. Svo líða einhver ár og þetta sama fólk fer að tala og allt í einu vilja allir trúa þeim,“ segir Hörður. 

Birta nýjar upplýsingar

Endurupptökunefnd stefnir að því að ljúka meðferð Guðmundar- og Geirfinnsmála í haust. Mannshvörfin komust aftur í hámæli nýlega eftir að Jón Daníelsson blaðamaður sagði nýjar vísbendingar í nýrri bók sinni sanna sakleysi Sævars Ciesielski. Ragnar Aðalsteinsson, verjandi Sævars þegar málið var endurupptekið 1997, segir að þar sé að finna fjarvistarsönnun Sævars. Ómar Ragnarsson birtir nýjar upplýsingar um málið í bókinni Hyldýpið. Fyrir fjórtán árum tók Ómar viðtal við fólk, karl og konu, sem bæði segjast tengjast hvarfi Geirfinns Einarssonar. Ómar segir að konan sé látin en hann telur að maðurinn sé enn á lífi en hann hefur ekki talað við fólkið í 12 ár. Í bókinni játar maðurinn glæp. „Hann viðurkennir að hafa óvart banað Geirfinni. Situr uppi með lík og hvað á hann að gera? Setja fjölskyldu sína, sig og alla út í ystu myrkur til æviloka? Eða það sem er miklu nærtækara, láta hann hverfa á ótrúlega skömmum tíma þannig að hann finnist aldrei og eftir nokkra mánuði eru allir búnir að gleyma þessu. Hvernig átti hann að óra fyrir því að þetta yrði stærsta sakamál Íslandssögunnar?" spyr Ómar. 

Ómar hefði átt að koma skilaboðum til lögreglu

Hörður segir mikilvægt að þessum gögnum sé komið til lögreglu. „Lögreglan þarf á upplýsingum að halda og það mikilvægasta sem lögreglan kemst í er að fá upplýsingar sem hægt er að nota. En það verður að gera greinarmun á málum sem eru óupplýst og málum sem er lokið, eins og þetta Geirfinnsmál sem er löngu búið að dæma í en af einhverjum ástæðum dúkkar það alltaf upp aftur og nýjar kenningar og þessi er sú nýjasta,“ segir Hörður. Arnar Þór Jónsson, lektor í lögfræði við HR, segir að frásögn fólksins sem Ómar ræddi við hafi ekkert sérstakt gildi fyrir dómstólum. Hann leggur áherslu á að þeir sem búi yfir mikilvægum upplýsingum í sakamálum komi þeim til réttra aðila, nafnlaust ef með þarf. Hörður segir að ákvörðun um skoðun þessara nýju gagna sé hjá ákæruvaldinu en ekki hjá lögreglu. En hann furðar sig á því hversu langur tími hefur liðið síðan Ómar fékk þessar upplýsingar. „Ég heyrði talað um fjórtán ár og ég er afskaplega hissa á því að ef að maður fær upplýsingar um eitthvað sem gæti nýst í rannsókn á svona máli að því skuli ekki vera komið á framfæri við yfirvöld strax.“

Stendur við opinberu útgáfu sögunnar

Ýmislegt hafi verið óvenjulegt við rannsóknina og það aukið á umfjöllun og spennu í kringum málið. „Ég hef ákveðna tilfinningu fyrir því að fólk tengt málinu og í kringum málið hafi fundið og notfært sér það þegar frá leið að það var jarðvegur fyrir því að þetta væri kannski ekki allt með felldu. Málið var allt mjög dularfullt. Það var mjög dularfullt hvernig þetta allt byrjaði, þegar það var fenginn útlendur maður til að stjórna rannsókninni. Allt þetta jók á umfjöllunina og spennuna. En ég bý svo vel að hafa, ég var reyndar ekki byrjaður í lögreglunni þegar þetta gerðist, en ég vann síðar hjá rannsóknarlögreglunni með stórum hópi þessara manna sem komu að þessu og af minni eðlislægu forvitni spurði ég þá mjög mikið og kynnti mér þetta vel. Þannig að ég hef leyft mér að standa með opinberu útgáfunni af sögunni, það er að segja þeir sem voru ákærðir og sættu dómi í málinu hafi verið viðriðnir það með einum eða öðrum hætti.“

Lítið á bak við stór orð ráðherra og þingmanna

Hörður segist ekki tilbúinn til að hlusta á seinnitímakenningar um að rannsókn lögreglu hafi verið ábótavant. Hann vill tala máli þeirra kollega sinna sem unnu í málinu. „Þeir bara vöknuðu einn daginn og voru með þetta mál í fanginu. Það hefur aldrei, hvorki hafa þeir viljað tala né hefur mörgum þeim sem hafa verið að fjalla um þetta dottið í hug að svo mikið sem reyna að kanna þeirra hug heldur eru ólíklegustu menn, jafnvel ráðherrar og niðri í þingi, hafa menn notað stór orð um þetta og ég leyfi mér að efast um þeir menn hafi kannski kynnt sér þetta í þaula þó þeir hafi kosið að nota um þetta stór orð.“