Hreiðar Már Sigurðsson, fyrrverandi forstjóri Kaupþings, var handtekinn í dag að beiðni sérstaks saksóknara. Farið hefur verið fram á hálfs mánaðar gæsluvarðhald yfir honum. Héraðsdómari tók sér sólarhrings frest til að úrskurða um gæsluvarðhald og þangað til verður Hreiðar Már í haldi lögreglu.

Hreiðar Már var handtekinn að lokinni skýrslutöku í morgun hjá sérstökum saksóknara. Hann er grunaður um skjalabrot, auðgunarbrot, brot gegn lögum um verðbréfaviðskipti og brot gegn hlutafélagalögum. Til grundvallar rannsókninni eru kærur frá Fjármálaeftirlitinu og önnur gögn. Hreiðar Már er meðal annars talinn hafa brotið 155. grein almennra hegningarlaga en hún kveður á um að hver, sem notar falsað skjal til þess að blekkja með því í lögskiptum, skuli sæta fangelsi allt að átta árum.

Ólafur Hauksson, sérstakur saksóknari, segir að vegna rannsóknarhagsmuna hafi embættið farið fram á gæsluvarðhald yfir Hreiðari Má. Bæði vegna eldri mála og nýrri. Niðurstaðan hafi verið að miðað við framvindu rannsóknarinnar og stöðu nýjustu máli yrði óskað eftir gæsluvarðhaldi.

Þá er Hreiðar Már grunaður um markaðsmisnotkun í meintum sýndarviðskiptum milli Kaupþings og Sheik Al-Thanis. Ólafur Ólafsson, kenndur við Samskip, er talinn hafa haft milligöngu um þau viðskipti.

Ólafur Hauksson staðfestir að Al-Thani málið sé þarna á meðal. Eins hafi komið fram upplýsingar í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis sem þurfi að rannsaka. Undir kvöld var annar hátt settur fyrrverandi stjórnandi í Kaupþingi handtekinn. Ólafur Þór útilokar ekki að fleiri verði handteknir í tengslum við handtöku Hreiðars Más.

Héraðsdómur tók sér frest til hádegis á morgun til að úrskurða um gæsluvarðhalskröfuna yfir Hreiðari Má. Hann verður í haldi lögreglu þangað til.