Samtímatónlistarhátíðin Myrkir músíkdagar fór fram á dögunum. Friðrik Margrétar- og Guðmundsson sagði frá nokkrum upplifunum sínum í Víðsjá.

Friðrik Margrétar- og Guðmundsson skrifar:

Í síðustu viku fór fram tónlistarhátíðin Myrkir músíkdagar sem er helsta hátíð sinnar tegundar á Íslandi og ein elsta íslenska tónlistarhátíðin en hún var fyrst haldin árið 1980. Myrkir músíkdagar hafa allt frá upphafi sérhæft sig í að bera fram það nýjasta og framúrstefnulegasta í íslenskri samtímatónlist auk þess að kynna fyrir Íslendingum það helsta frá meginlöndunum tveimur sitt hvoru megin við eyjuna litlu í miðju Atlandshafi. 

Árshátíð? 

Hátíðin hefur farið hægt og bítandi vaxandi en hefur samt alltaf verið smávaxin í sniðum miðað við hefðbundnari tónlistarhátíðir þrátt fyrir að vera stór í anda. Eitt það skemmtilegasta við hátíðina er nándin við flytjendur og tónskáld sem getur stundum virkað eins og maður sé á árshátíð samtímatónlistarsenunnar þar sem þátttakendur og hlustendur fagna saman góðri uppskeru af frjósömum akri íslenskrar framúrstefnutónlistar. Þegar ég fór fyrst að sækja hátíðina fyrir nokkrum árum síðan fór hún nánast einungis fram í Hörpu og var styttri, bara þrír til fjórir dagar. En nú fara tónleikarnir fram á hinum ýmsu stöðum í miðbæ Reykjavíkur auk þess að nokkrrir tónleikar fóru fram í Hafnarborg í Hafnarfirði. Fjölbreytnin í tónleikastöðum og lengd hátíðarinnar, sem var núna heil vika, gerði það að verkum að maður fékk tíma til að melta tónleikana á meðan gengið var á milli tónleikastaða í kuldanum og myrkrinu sem hefur fylgt þessum síðustu dögum janúarmánaðar og setti hárrétta stemningu fyrir hátíðina. 

Kúbus

Ég viðurkenni það að ég er tiltölulega mikill nýgræðingur á hátíðinni miðað við marga en fyrsta skiptið sem ég mætti var árið 2015. Það var einmitt líka í fyrsta skiptið sem hljóðfærahópurinn Kúbus spilaði á hátíðinni þegar þau héldu tónleika með 21 nýju tónverki sem hvert var ein mínúta að lengd. 

Þó að Kúbus sé ungur hópur er hann skipaður kunnulegum andlitum úr heimi klassískar- og samtímatónlistar á Íslandi. Tónleikar þeirra á hátíðinni í ár mætti lýsa sem einhversskonar framhaldi eða hliðstæðu við þá tónleika sem þau héldu árið 2015 þar sem tvö tónskáld unnu ný verk upp úr gömlu mínútnalöngu verkunum sínum, talsvert lengri í þetta skiptið. 10 mínútna langt verk Hauks Tómassonar, Unravelled og hálftímalangt tónleikhús Kolbeins Bjarnasonar, Ótímabær tónlist II. 

Tónleikarnir fóru fram í Fríkirkjunni í Reykjavík og innst í kirkjuskipunu blasti við safn af allskonar skálar og könnur fylltar með vatni, kertastjaki, taktmælar eins og fjölmargir hlaðnir Checkovrifflar sem biðu eftir því að vera hleypt af.  

Þessir leikmunir fengu þó ekki að koma við sögu í fyrra verki tónleikanna, Unravelled eftir Hauk Tómasson. Verkið var tíu mínútna úrvinnsla af mínútnulanga verkinu Rondo frá 2015.  

Unravelled bar sterk einkenni höfundar, tónmálið hans Hauks er bæði þægilegt og áhugavert og í verkinu var einhver leikgleði sem ég kunni mjög vel að meta. Formið þróaðist eins og Haukur lýsti sjálfur í efnisskránni: Gróft séð frá frosnu ástandi yfir í meira fljótandi sem ég var frekar skeptíksur á í byrju, enda geta þannig línuleg form oft verið í óþökk hlustandans að mér finnst en virkaði mjög fínt í þessu tilviki. 

Haukur var kannski óheppinn að vera með verk á sömu efnisskrá og Kolbeinn Bjarnason sem var mun meira á milli tanna gestanna eftir að tónleikunum lauk. Á þessum tímapunkti var komið á annan dag hátíðarinnar og meira en tímabært að fá eitt verk sem fær mann til að spyrja: Hvað í ósköpunum er í gangi? Í prógrammi tónleikanna kemur fram að í verkinu, sem nefnist Musik der Unzeitlichkeit II eða Ótímabær tónlist 2 er farið öfganna á milli og ýmist hlaðið upp miklu efni á mjög stuttum tíma eða litlu efni í hafsjó af tíma. 

Verkið hófst með löngum fyrirlestri um hina mismunandi kafla verksins, sem var kannski heldur óþarft eftir á að hyggja, svoltið eins og að lesa titla allra kafla í bók áður en maður leggur í lestur, enda þegar þegar kom að því að þýða upphafsfyrirlesturinn á ensku fyrir þá sem skildu ekki íslensku var látið duga að benda á þá staðreynd að kynningin væri tilgangslaus. 

Verkið sjálft byrjaði svo á að mér fannst hápunktinum, stuttum en bráðfallegum sjónrænum dúets milli kertaljóss og rafljóss á taktmæli. Leikræni þáttur verksins fannst mér heilt yfir hitta vel í mark og hann hefði getað notið sín meira. Meirihluti verksins var í tónlistarformi þar sem tónmálið hefði alveg getað verið hámódernískt seríalískt verk frá miðri síðustu öld frekar en 21. Aldar tónleikhús og ég viðurkenni að ég átti oft erfitt með að halda þræði, þó voru þarna nokkur gullin augnablik, þar einna helst dúetkafli milli flautu og klarinetts sem Melkorka Ólafsdóttir og Grímur Helgason spiluðu af hreinni snilld. 

Ég saknaði þess helst að leikræni og tónlistarlegi þátturinn væru ekki sameinaðir meira í stað þess að vera svona klipptir og skornir.  

Dúplum Dúó

Næstu tónleikarar daginn eftir fóru fram í næsta húsi við Fríkirkjuna, Iðnó, sem kom mjög skemmtilega út sem tónleikastaður á hátíðinni. 

Dúplum Dúó er skipað þeim Þóru Margréti Sveinsdóttur víóluleikara og Björku Níelsdóttur söngkonu, tónskáldi og textahöfundi. Á efnisskrá þeirra voru fjögur verk, hvert öðru ólíkara.  

Tvö af verkum tónleikana voru byggð á eldri textum, hollenska tónskáldið Aart Strootman notaðist við Blóm hins illa eftir Baudelaire í lokaverki tónleikanna. Verkið var skirfað fyrir uppmagnaða víólu og rödd sem og segulband. Þó svo að verkið væri klárlega það háværasta er ekki hægt að segja að það væri það áhrifamesta. Þó að verkið hafi náð að endurspegla texta Baudelaire’s af einhverju leyti hljómaði framleiðslan á tilbúnu hljóðunum frekar frumstæð og hálfkjánaleg sem dró mann snarlega úr heimi franska ljóðskáldsins. 

Verkið eftir Svein Lúðvík samið við Sonnettu 39 eftir Shakespeare mætti kannski frekar kalla andtónlist, textinn lesinn en ekki sunginn og aðeins fáeinar nótur í víólunni. Ekki svo með sagt að það hafi verið áhrifalítið. 

Sóley Stefánsdóttir átti svo verk sem mér fannst mjög smekklega skrifað. Sérstaklega fyrir rödd. Verkið sem heitir Parasite og minnti mjög á tónlist Sóleyjar sem hún flytur sjálf á sama tíma og það var mjög heppilega skrifað fyrir flytjendurnar.  

Eftirminnilegasta verkið var samt líklegast það fyrsta sem Björk Níelsdóttir samdi við eign texta og flutti svo sjálf ásamt Þóru, bæði sem söngkona og hristuleikari. Allt er ömurlegt.  

Texti verksins byggður á daglegu amstri höfundar eins og segir í efnisskránni. Ljóðin voru stutt og lögin því einhversskonar ör lög, sem var eimitt yfirskrift tónleikanna. Það er því kannski það eina sem þarf að segja um tónlistina að hún hentaði textunum fullkomlega. Góðar tímasetningar og góð heildarmynd með skemmtilegum uppbrotum. En verkið hefur textann alltaf í forgrunni og Björk skilaði honum frá sér það vel að textablaðið hefði verið algjörlega óþarft og þær báðar virtust njóta sín til fullnustu í verkinu.  

Textarnir voru mjög í anda ákveðinnar senu sem hefur myndast hjá nokkrum af yngri ljóðskáldum síðustu ára. Stutt örljóð sem kæmust fyrir í einni færslu á twitter. Sum voru einhversskonar minningar aðrar útskrifaðar senur úr daglegu lífi, pælingar, brandarar eða jafnvel auglýsingar fyrir stórfyrirtæki sem lét mig velta því fyrir mér hvort að framtíð samtímatónlistar væri kannski ekki að leita í opinbera styrki heldur að fá pening frá stórfyrirtækjum í staðinn fyrir auglýsingar í formi tónlistar. Sama hvað þá er allavega orðið ljóst að ungskáldin sem hafa stundum verið kenndi við strætóljóð virðast vera með eitt ákveðið skyndibitafyrirtæki á heilanum sem poppar upp aftur og aftur í ljóðabókum síðustu ára. En burtséð frá áhrifum stórfyrirtækja var virkilega gaman að sjá flytjendur af yngri kynslóðinni þ.e.a.s. Minni kynslóð stíga á stokk á hátíðinni og ég efast ekki um að Dúplum Dúó eigi eftir að láta meira til sín taka á næstunni. 

Nordic Affect

Í ár voru einir tónleikar í Gamla bíói. Það voru Nordic Affect. Hópur sem hefur fyrir löngu skapað sér sess hér á landi og hefur síðustu ár verið að meika það í útlöndunum. Það var þess vegna ekki lítil eftirvænting eftir tónleikunum þeirra á Myrkum en þetta árið voru tónleikarnir í samstarfi við norksu tónskáldið og söngkonuna Maju S K Ratke. Maja  S K Ratkje er það sem er kallað í samtímatónlistargeiranum flytjanda-tónskáld, íslenskan fyrir composer-performer sem er samtímatónlistarútgáfan af hugtakinu singer-songwriter. Maja notar mikið röddina sína 

Á óhefðbundinn hát, svoltið í anda Meradith Monk, þar sem fjölmargar tónlistarlegar persónur eru dregnar fram úr raddböndunum. 

Í efnisskránni var tekið fram að tónlist Ratkje spanni oft sterkar andstæður og það var svo sannarlega raunin í Rökkri, verkinu sem hún flutti ásamt Nordic Affect. Andstæðurnar voru áberandi strax þegar maður leit á sviðið og sá barokkhljóðfæri Nordic Affect stillt um með rafbúnaði Ratkje en í verkinu sá hún um lifandi rafvinnslu á hljóðinu auk þess að syngja og nota allskonar óhefðbundna raddbeitingu í gegnum verkið. Strax í upphafi urðu andstæðurnar enn sterkari þegar minnstu hljóð strengjahljóðfæranna voru mögnuð upp í geysistóra hljóðmynd sem fyllti Gamla bíó. Verkið fór á ótrúlega fjölbreytta staði, hægir seigfljótandi kaflar á móti hröðum rytmískum köflum frá hávaða yfir í lagræn sönglög. Rödd Maju Ratkje náði mér á hennar band snemma í verkinu en flautið í lok verksins snerti sannarlega djúpt. Það er aldrei leiðinlegt að heyra fallegt flaut. Hljóðfærin fengu vel að njóta sín í skrifum Ratkje, en eins og með röddina sína nýtti bæði óhefðbundna spilatækni við hefðbundnari. 

Tónleikarnir enduðu svo á sönglagi eftir dóttur Ratkje. Falleg kvöldstund í Gamla bíói.