Samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, Sigurður Ingi Jóhannsson, er sáttur við niðurstöðu sveitarstjórnar Reykhólahrepps. Hann segir að leiðin hefði alltaf verið umdeild, sama hver hefði verið valin.

„Þetta er búið að vera langur og strangur ferill og núna vonandi er þetta að leysast. Ég er nú ekki sammála því að það sé búið að taka skipulagsvaldið af heldur hefur þessi vinna tekið langan tíma. Smátt og smátt hafa menn kannski hent öðrum kostum frá og þetta var síðan orðinn sá kostur sem að þótti líklegastur og það er bara ánægjulegt að menn skuli hafa tekið ákvörðun um það í dag að setja hann áfram í skipulagsferli,“ segir ráðherrann. 

Í kjölfarið mun Vegagerðin óska eftir framkvæmdaleyfi og komið hefur til greina að tvískipta því, að sögn Sigurðar Inga. Sveitarfélagið gæti þá veitt framkvæmdaleyfi fyrir að tvískipta framkvæmdinni. „Hún gæti vonandi farið af stað. Sá hluti sem er minna umdeildur. Vilji menn reyna kæru þá gera menn það. Vonandi kemur svar um það eins fljótt og hægt er þannig það verði ekki truflun á framkvæmdinni.“

Þannig að þú býst alveg eins við kæru? „Ég á satt best að segja alveg von á því að menn muni láta á ýmsa slíka hluti reyna, já.“