„Gott dæmi um hvernig jöklar eru að hopa er Sólheimajökull,“ segir Halldór Björnsson, formaður vísindanefndar um loftslagsbreytingar í þriðja þætti af Hvað höfum við gert? sem verður sýndur á sunnudagskvöld.
Liane G. Benning, prófessor við þýsku jarðvísindastofnunina í Potsdam segir að bráðnun jökla sé eðlileg, hins vegar sé hraðinn sem það gerist á núna algjörlega án fordæma. „Við sjáum það bara að það sem rýrnað hefur á Íslandi af jöklum það sem af er þessari öld, þetta er allt tengt minna en einnar gráðu hlýnun. Allir jöklar á Íslandi hverfa við tveggja gráðu hlýnun,“ segir Dr. Helgi Björnsson, jöklafræðingur og prófessor. Þegar hann vandi komur sínar að Sólheimajökli upp úr 1970 var jökullinn í framrás í nokkur ár. „En núna liggur hann hérna eins og hann sé steindauður og rýrnar um 10 metra á ári. Allt tengist þetta hlýnandi loftslagi sem veldur því að það vorar fyrr, og meira og meira af úrkomu fellur sem rigning en ekki snjór. Þegar svona lítill snjór er orðinn, þá bráðnar jökullinn líka miklu hraðar því ís endurkastar minna en helmingi af sólarorku, en ef snjór liggur yfir getur hann endurkastað nánast öllu.“
Í þriðja þætti af Hvað höfum við gert? verður fjallað um hvernig hækkandi hitastig og loftslagsbreytingar hafa meðal annars áhrif á vatnsbúskap, veðurfar og bráðnun jökla – en áhrifanna gætir um allan heim, líka á Íslandi.