Unnur Sverrisdóttir. forstjóri Vinnumálastofnunar, segir að aldrei hafi jafnmargir misst vinnuna í einu líkt og í dag. Ljóst sé að miklu meira verði greitt úr atvinnuleysistryggingasjóði á þessu ári en spáð hafði verið. Um ellefu hundruð manns sem störfuðu hjá WOW air var í dag sagt upp störfum. 

Vinnumálastofnun hefur virkjað viðbraðgsteymi og helsta forgangsmálið er að þjónusta starfsfólk WOW air sem misst hefur vinnu sína. Unnur segist fyrst og fremst vera sorgmædd yfir fréttum dagsins. 

„Það eru ömurleg tíðindi þegar svona stórt fyrirtæki verður gjaldþrota. Fyrir samfélagið í heild en sérstaklega fyrir starfsfólkið, sem var örugglega orðið vongott um að halda vinnunni sinni.“

Í lok dags var haldinn starfsmannafundur hjá Vinnumálastofnun, þar sem farið var yfir hvernig dagurinn gekk fyrir sig, og hver næstu skref verða.

„Við höfum líka verið að fylgjast með umferð um vefinn, hún hefur verið alveg rosalega mikil. Enda sækir fólk um atvinnuleysisbætur þar. Svo hafa mörg símtöl komið og fólk hefur verið að koma. En væntanlega mun fólk koma meira næstu daga. 

-Það er starfsfólk WOW sem er að koma og hringja?

„Já. Starfsfólk WOW.“

Unnur segir að engin tilkynning um hópuppsögn hafi borist frá WOW Hins vegar séu starfsmenn fyrirtækisins um 1.100. Þá eru ótaldin þau hundruð sem missa vinnuna hjá öðrum fyrirtækjum vegna gjaldþrotsins. Sem dæmi má nefna að 59 manns var sagt upp hjá Kynnisferðum í dag.

„Ég hef heyrt að það eru um 1100 manns sem að hafa verið að störfum hjá WOW. Þannig við getum að minnsta kosti byrjað að telja þar. Síðan veit ég ekki hvort að það eru einhverjir í verktöku eða með tímabundna samninga eða hvernig það er. Þetta er allavega gríðarlegur fjöldi. “

-Hvaða áhrif mun það hafa þegar svona margir missa vinnuna í einu?

„Þetta hefur bara ekki gerst áður, að svona margir hafi misst vinnuna á sama augnablikinu. Það gerðist ekki einu sinni í hruninu, þar kom þetta meira í hollum. Þannig að við vitum það ekki. Við erum bara að setja allt í gang sem við getum. Við tökum á móti umsóknum, greiðum út og reynum að láta þetta ganga eins vel og við mögulega getum.“

Ljóst sé að uppsagnirnar hafi áhrif á atvinnuleysistryggingasjóð. „Þetta verða hærri greiðslur en við vorum búin að spá fyrir árið 2019. Það er alveg ljóst. Það verða miklu meiri greiðslur,“ segir Unnur.