Yfir 90 fuglategundir sáust í vetrarfuglatalningunni í ár og hafa þær aldrei verið fleiri. Kristinn Haukur Skarphéðinsson, dýravistfræðingur hjá Náttúrufræðistofnun Íslands segir að greina megi fækkun í þekktum fuglastofnum sem að hluta má rekja til loftslagsbreytinga.
Elsta samfellda vöktun
Vetrafuglatalning hófst hér á landi fyrir hátt í sjötíu árum. Til að byrja með var hún sport fuglaskoðunarfólks en er nú álitin vísitala á breytingar. 50 tegundir fugla eru reglulegir vetrargestir á landinu. Kristinn Haukur segir að nýjar tegundir hafi sest hér að og hingað flækjast sjaldgæfar fuglategundir
„Þannig að í ár sáust um eða yfir 90 tegundir fugla í talningunni og það hafa aldrei sést jafnmargar tegundir.“
Horfa má á umfjöllunina í spilaranum hér fyrir ofan
Áberandi minna af snjótittlingi
Sumar fuglategundir bregðast mjög fljótt við loftslagsbreytingum, til dæmis er hér meira af álftum, rauðhöfðaöndum og grágæsum en fyrir nokkrum áratugum. Og þær fuglategundir sem kjósa kaldara loftslag hafa fært sig.
„Sá fugl sem er nú kenndur við snjó snjótittlingurinn það er áberandi minna af honum síðustu árin. Það virðist sem þeir séu að láta undan þeim breytingum sem hefur orðið á veðurfari síðustu 10 til 20 árin.“
Mildir vetur geta t.d. haft áhrif á möguleika rjúpunnar sem skiptir um lit á haustin. Ef veturnir eru meira og minna snjólausir er hún auðveldari bráð fyrir fálka og veiðimenn. Árið 2017 var hvergi snjór á landinu
„Og þá mátti segja að það væri eins og að skjóta fisk í tunnu að stunda rjúpnaveiðar fyrstu dagana.“
Válisti íslenskra fugla
Miklar breytingar hafa orðið á fæðu fjölmargra fuglategunda hér á landi.
„Nánast allir sjófuglar eru bara á válista og þar á meðal algengustu fuglar landsins fýll og lundi.“
Alþjóðanáttúruverndarsambandið flokkar fugla eftir því hvað þeir eru taldir vera í mikilli útrýmingarhættu. Þrjár íslenskar fuglategundir, fjöruspói, lundi og skúmur eru í bráðri hættu. Ellefu til viðbótar eru í hættu. Þeirra á meðal er fýll, haförn og svartbakur og tuttugu og þrír eru í nokkurri hættu - þeirra á meðal er kría, snjótittlingur og æðarfugl.
Hægt er að finna lista yfir alla íslenska fugla sem eru í hættu á vef Náttúrufræðistofnunar Íslands
Kristinn segir að oft sé erfitt að segja til um nákvæmlega hvað veldur breytingunum. „En núna eru þessar loftslagsbreytingar undir og yfir öllu sem er að gerast hér og þá oftast í gegnum fæðuna sem við sjáum breytingar hér á þessum fuglastofnum.“