„Nú þegar við stöndum á 20 ára afmæli þá er ég nokkuð viss um líka að næstu tíu ár verði ekki eins og þau síðustu,“ segir Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra og formaður Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs, en flokkurinn fagnar nú 20 ára afmæli. Hún segir að það hafi verið lærdómsríkt að sitja í ríkisstjórn eftir hrun. Samfélagsumræðan hafi gjörbreyst frá upphafsárum flokksins og hafi gert það að verkum að það sé aldrei auðvelt verkefni að sitja í ríkisstjórn.
Fanney Birna Jónsdóttir ræddi við Katrínu á Morgunvaktinni í morgun.
Katrín gekk til liðs við VG árið 2002. Hún segir að saga flokksins sé samofin miklum umbrotatímum í íslenska flokkakerfinu. Flokkurinn fékk sex þingmenn kjörna í sínum fyrstu þingkosningum árið 1999 þvert á spár og eðlisbreyting hafi orðið á flokknum þegar hann fór í fyrsta sinn í ríkisstjórn tíu árum síðar. Þá hafi þurft að gera erfiðar málamiðlanir og sú breyting hafi að hennar mati haft varanleg áhrif á flokkinn.
Hún segir rétt að innanflokksátök hafi verið erfið. „En það góða við þau er að þau hafa verið mjög fyrir opnum tjöldum og á yfirborðinu. Að sumu leyti held ég að það sé hollt. Ég er ekki endilega að mæla með innanflokksátökum og alls ekki átakanna vegna en það er betra að þau séu uppi á borðum og ekki bakvið tjöldin.“
Katrín segir að orð Steingríms Hermannssonar, fyrrum forsætisráðherra, hafi verið henni ofarlega í huga undanfarið ár. „Hann sagði einhvern tímann að mikilvægasta hlutverk forsætisráðherra væri að halda friðinn og ég held að það sé mikill sannleikur í þeim orðum.“
Hún segir að það hafi verið fyrirséð að ríkisstjórnin yrði flókin. „Að einhverju leyti er þetta það sem ég kalla pólitísk nýsköpun sem sprettur upp úr mjög óvenjulegum aðstæðum og hefði kannski ekki orðið til undir öðrum kringumstæðum. En heilt yfir þá hefur þetta ríkisstjórnarsamstarf gengið vel og ég held að það séu allir mjög metnaðarfullir í því að það takist vel einmitt vegna þess hve óvenjuleg ríkisstjórnin er. En síðan er það bara þannig að þau örlög hlotnuðust mér að fá að taka þátt í ríkisstjórninni 2009 til 2013 og þegar ég lít yfir sviðið frá því ég steig inn á þetta pólitíska svið þá voru það auðvitað miklu erfiðari tímar til að sitja í ríkisstjórn. Ég held hinsvegar að bara að einhverju leyti líka alveg gjörbreytt samfélagsumræða á þessum 20 árum sem VG hefur verið til hefur líka gert það að verkum að það er aldrei auðvelt verkefni að sitja í ríkisstjórn. Og kannski á það ekki að vera það.“