Albanska mafían er háþróuð, vel skipulögð og skilar alltaf sínu. Hún hefur yfirtekið nær algjörlega fíkniefnamarkaðinn í Bretlandi og vinnur náið með ítölsku mafíunni 'Ndrangheta.
Þeir heita Hellbanianz og eru þekktir fyrir dæmalaust ofbeldi og eru áberandi á samfélagsmiðlum. Glæparapp, Ferrari-bílar, fimmtíu punda seðlabúnt og Rolex-gullúr. Allt hjálpar þetta til að skapa ótta og orðstír og tryggja stöðuga nýliðun í hópnum. Enginn skortur á ungu fólki sem þráir að komast inn í hlýjuna hjá Hellbanianz.
Fíkniefni, vopnasala, mansal og líffærasmygl
Hellbanianz eru samt bara neðst í fæðukeðjunni hjá albönsku mafíunni. Þeir sjá um smásölu á fíkniefnum eða götusöluna, handrukkun og ofbeldisverk ýmiss konar fyrir albönsku mafíuna sjálfa, Shqiptare. Shqiptare eru alþjóðleg glæpasamtök sem teygja anga sína um allan heim og hafa gríðarleg völd í fíkniefnaheiminum. Þau eru einnig mjög stórtæk í vopnasölu, mansali, smygli á líffærum og hafa afar góð tengsl við aðrar mafíur og ekki síður stjórnmálamenn og aðra ráðamenn víða um heim. Í umfjöllun Observer kemur fram að yfirvöld í Bretlandi telji að albanska mafían sé á góðri leið með að verða allsráðandi þar á risavöxnum fíkiefnamarkaði. Hellbanianz fara ekki í felur með auð sinn og völd eða vilja og getu til ofbeldisverka. En þeir eru bara lágt settir útverðir albönsku mafíunnar.
Gerbreyttu fíkniefnamarkaðnum
Albanska mafían hefur sýnt mikla kænsku í leið sinni á tind glæpaheimsins með klókindum í viðskiptum, samvinnu við voldugustu glæpasamtök veraldar og óttaleysi við að beita taumlausu ofbeldi þegar á þarf að halda. Kókaínmarkaðurinn var lengst af lagskiptur. Ákveðnar glæpaklíkur sáu um innflutning efna til Evrópu, aðrir hópar sáu um heildsöluna og enn aðrir um dreifingu. Verðið var mjög breytilegt og réðst meðal annars af hreinleika efnisins. Albanska mafían gerbreytti þessu kerfi. Hún samdi beint við Kólumbíumennina sem stýrðu framleiðslunni. Risastórar sendingar komu með skipum og albanska mafían hafði alla þræði í eigin höndum. Hún keypti kókaínkílóið frá Kólumbíu á fjögur til fimm þúsund og fimm hundruð pund á kíló á meðan keppinautarnir voru að greiða heildsölum í Hollandi tuttugu og tvö þúsund og fimm hundruð pund á kílóið. Albanarnir gátu boðið mun hreinna efni á mun lægra verði.
Þriðjungi meiri kókaínframleiðsla
Observer segir að albanska mafían sé allsráðandi í Bretlandi. Verð á kókaíni hefur ekki verið lægra frá 1990 og efnið ekki verið hreinna í áratugi. Dauðsföll hafa aldrei verið fleiri og hvergi í Evrópu eru ungir notendur hlutfallslega jafn margir. Framleiðslan hefur aukist gríðarlega í Kólumbíu og er nú þriðjungi meiri en árið 2016.
Shqiptare og 'Ndrangheta jafningjar sem vinna náið saman
Til þess að stjórna fíkniefnamarkaðnum í Evrópu þarf að hafa stjórn á stóru innflutningshöfnunum. Til þess þurfti albanska mafían Shqiptare að vinna með 'Ndrangheta, valdamestu og alþjóðavæddustu glæpasamtökunum á Ítalíu, sem stýra kókaíndreifingunni á meginlandi Evrópu. Sérfræðingar segja að albanska mafían og sú ítalska vinni ekki bara saman, heldur hafi í raun myndað bandalag. Shqiptare og 'Ndrangheta séu jafningjar sem vinni náið saman og hafi góð tengsl í rómönsku Ameríku. Rotterdam í Hollandi er stærsta innflutningshöfn Evrópu og þar á eftir Antwerpen í Belgíu. Á hafnarsvæðunum í Hollandi og Belgíu vinna tvö hundruð og fjörutíu þúsund manns og margir þeirra vinna fyrir Shqiptare og 'Ndrangheta mafíurnar. Hafnirnar eru viðkvæmasti þátturinn í fíkniefnadreifingu. Öryggisgæsla er gríðarleg og erfitt að koma efnum í gegn. Sérfræðingar segja að ítalska mafían hafi útvistað þeim þætti að stórum hluta til albönsku mafíunnar.
Geta og vilji til að beita taumlausu ofbeldi
Albanska mafían hefur sóst eftir samvinnu við helstu glæpasamtök heims og ekki tekið þátt í hjaðningavígum þar sem allir tapa. Hún hefur sýnt kænsku og myndað tengsl við öll helstu glæpasamtökin. Þrátt fyrir þetta er hún þekkt fyrir getu og vilja til að beita taumlausu ofbeldi þegar á þarf að halda. Enginn vill reita liðsmenn hennar til reiði að óþörfu enda margir vígvanir eftir áralangt stríðsástand í heimahögunum. Menn vita að það er hægt að semja við þá en vita jafnframt hvað þeir geta gert ef illa fer. Og albanska mafían stendur alltaf við sitt, hún skilar alltaf sínu. Alltaf.
Peningabúnt, fáklæddar stúlkur og dýrir vélfákar
Albanska mafían vill vinna í kyrrþey og safna auði og völdum fjarri sviðsljósinu. Hún er því lítt hrifin af albönskum götuklíkum eins og Hellbanianz sem eru glysgjarnar í meira lagi, veifa peningabúntum, fáklæddum stúlkum og dýrum vélfákum. En vinsæl tónlistarmyndbönd þeirra og lífstíll tryggja að enginn skortur er á viljugum nýliðum til að selja fíkniefnin og sinna skítverkum.