Ákvörðun sjávarútvegsráðherra um hvort haldið verði áfram hvalveiðum eða ekki mun byggja á nýrri skýrslu Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands um hvalveiðar. Í skýrslunni segir að veiðarnar séu þjóðhagslega hagkvæmar og hvatt til aukinna veiða á hval. Ráðherra segir að nýta eigi auðlindir í hafi og það á sjálfbæran hátt.
Kristján Þór Júlíusson sjávarútvagsráðherra óskaði eftir því síðasta sumar að Hagfræðistofnun Háskóla Ísland ynni úttekt á því hvort hvalveiðar væru þjóðhagslega hagkvæmar. Niðurstaða skýrsluhöfunda var sú að veiðarnar væru hagkvæmar og að auknar veiðar myndu stækka fiskistofna og þannig auka útflutningsverðmæti.
Kristján Þór var spurður af því í fréttum Sjónvarps í kvöld hvað hann hygðist gera með niðurstöður skýrslunnar.
„Hún þarf að undirbyggja ákvörðun sem ég þarf að taka um það hvort við höldum áfram hvalveiðum eða ekki. Þetta liður í því bara að undirbyggja þá ákvörðun,“ segir Kristján.
Nú leggja skýrsluhöfundar til auknar hvalveiðar, ætlar þú að fara að þeim niðurstöðum?
„Íslendingar byggja nýtingu auðlinda sinna sama hvort það er í hafi eða á landi á ráðleggingum vísindamanna. Meginmarkmið okkar er það að stunda sjálfbæra nýtingu auðlinda sem byggja á þessari sömu ráðgjöf. Það er ekki fyrr en við fengjum slíka ráðgjöf sem kostar mikla vinnu og úttekt sem gerð er á grunni sem alþjóðlega stofnanir setja. Þá fyrst þegar slíku lyki eftir tiltölulega langan tíma kæmi að ákvörðun um einhverja frekari nýtingu,“ segir Kristján.
En hvað finnst þér sjálfum?
„Ég hef verið þeirrar skoðunar og hef ekkert legið á því að við eigum að nýta náttúru landsins sama hvort er til sjávar eða sveita á grundvelli sjálfbærrar nýtingar. Það höfum við alla tíð gert Íslendingar.
Flokksráð Vinstri grænna ályktaði um hvalveiðar í október síðastliðnum og leggjast eindregið gegn veiðum.
Er þetta ekki svolítið erfitt við ríksstjórnarborðið?
„Það kann að vera að sumum þyki þetta þungt. En meginatriði í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar að við ætlum að byggja nýtingu auðlinda, þó ekki væri nema þetta umdeilda mál sem oft hefur komið til umræðu núna upp á síðkastið sem er fiskeldið, við ætlum að byggja það upp á grundvelli vísindalegrar ákvörðunar. Þannig höfum umgengist auðlindirnar og það munum við gera áfram,“ segir Kristján.
Skýrslan verður rædd á fundi ríkisstjórnarinnar í fyrramálið.