Ákvörðun kjararáðs um að auka álag á laun dómara er ekki fordæmisgefandi í kjaraviðræðum á almennum vinnumarkaði. Þetta segir fjármálaráðherra. Varaformaður kjararáðs telur rétt að bíða eftir kjarasamningum á vinnumarkaði áður en farið sé að hækka laun þeirra sem heyra undir kjararáð.
Þjóðkjörnir einstaklingar, embættismenn og prófessorar eru meðal þeirra sem heyra undir kjararáð. Þessi hópur tók á sig launalækkun eftir hrun með lagasetningu alþingis þar sem jafnframt var kveðið á um að föst laun þessa fólks fyrir dagvinnu yrðu ekki hærri en laun forsætisráðherra. Kjararáð var bundið af þessum lögum þangað til í nóvember síðastliðnum en getur nú farið að endurskoða úrskurði sína. Það var einmitt gert á dögunum þegar ákveðið var að auka álag á laun dómara. Rannveig Sigurðardóttir, varaformaður Kjararáðs, kaus gegn þeirri ákvörðun. Hún segir kjararáð ekki farið að ræða um hvort tímabært sé að launalækkanir gangi til baka.
,,Ég tel að kjararáð eigi ekki að vera launaleiðandi í landinu og þess vegna muni ekki koma í ljós fyrr en gerðir hafa verið kjarasamningar á vinnumarkaði hversu mikið launasvigrúm er til staðar. Þegar það liggur fyrir er rétt að taka til endurskoðunar laun þeirra sem undir kjararáð heyra," segir Rannveig.
Fjármálaráðherra segir að þó ekki sé um eiginlega launahækkun að ræða, í tilfelli dómaranna, sé þetta óheppilegt útspil nú þegar kjaraviðræður standa sem hæst.
,,Þetta er bæði óheppileg tímasetning og óheppileg niðurstaða. En hún er bara eins og hún er. Við verðum að horfast í augu við það. En af hálfu ríkisins sem viðsemjanda stendur ekki til að líta til þessa sem fordæmis á nokkurn hátt," segir fjármálaráðherra.