Íslendingurinn, sem tyrkneskir fjölmiðlar fullyrtu í gær að hefði fallið í Sýrlandi, heitir Haukur Hilmarsson. Haukur er þekktur aðgerðasinni og komst oft í fréttir hérlendis í tengslum við mótmæli eða vegna baráttu fyrir réttindum hælisleitenda. Enn hefur ekki borist formleg staðfesting á því hvort Haukur er lífs eða liðinn.

Haukur tók virkan þátt í mótmælum gegn Kárahnjúkavirkjun á Austfjörðum árið 2006. Árið 2008 fór Haukur ásamt öðrum manni í heimildarleysi inn á flugvallarsvæðið við Leifstöð, með það að markmiði að stöðva brottför flugvélarinnar sem átti að flytja hælisleitandann Paul Ramses úr landi. Fyrir það fékk Haukur 60 daga fangelsisdóm. Ramses fékk hæli á Íslandi árið 2010. Þá vakti mikla athygli þegar Haukur dró Bónusfána að húni á Alþingishúsinu í búsáhaldabyltingunni. Hann var í kjölfarið handtekinn, sem varð til þess að út brutust mikil mótmæli við lögreglustöðina við Hlemm. 

Síðdegis í dag birtu samtökin International Freedom Batallion myndband af Hauki á Youtube þar sem hann lýsir yfir stuðningi við samtökin, og að hann ætli að berjast við hlið þeirra, fyrir málstað Kúrda. Þar heyrist Haukur kynna sig sem Şahin, sem þýðir haukur á tyrknesku. Samtökin segja á Youtube að Haukur hafi fallið í árás Tyrkja í Afrín-héraði, og að Haukur hafi barist við hlið þeirra gegn hryðjuverkasamtökunum Íslamska ríkinu.