Gagnrýnandi Víðsjár segir þær krossgötur sannleika og lyga, sem Þórunn Jarla Valdimarsdóttir dansi á í bók sinni um Skúla fógeta, vera áhugaverðan og leikandi stað þar mörk skáldskapar og sagnfræði breytast og kúvendast. Útkoman sé lífleg mynd en þó ekki gallalaus.
Andri M. Kristjánsson skrifar:
Skúli fógeti eftir Þórunni Jörlu Valdimarsdóttur fjallar, eins og titillinn gefur til kynna, um Skúla Magnússon sem var fyrstur Íslendinga til að gegna embætti landfógeta um miðja 18. öld. Sem verður þó að teljast vægt til orða tekið í ljósi þess að hann náði að hanga í embætti, nánast fram á dauðadag. Bókinni er skipt í átta kafla þar sem ævi Skúla er fylgt allt frá fyrsta til síðasta andardráttar. Eins og gengur og gerist í slíkum ævisagnaritum er sums staðar stiklað á stóru en staldrað við annars staðar, á stöðum sem þykja merkilegri í stóra samhenginu. Það er skautað hratt yfir bernskubrekin og uppvöxtinn á Íslandi en þegar Skúli stígurniður fæti í Kaupmannahöfn fer að hægjast á frásögninni og lesandinn fær meira kjöt á beinin. En allt leiðir þetta nokkuð snyrtilega að upphafinu á embættismannaferli Skúla sem er hugsaður sem rúsínan í pylsuendanum.
Skúli fógeti er hvorki sagnfræðirit né skáldsaga en samt sem áður er ekki algjörlega hægt að þvo þessa flokkun af innihaldinu. Í textanum er dansaður línudans milli sannleikans og lyginnar. Á bókarkápu Skúla fógeta er listi yfir áður útgefin verk höfundar og þar má einnig finna hina opinberu flokkun höfundar og/eða forlagsins þar sem bókin er skilgreind sem fræðilegt verk. Sú flokkun er hvorki rétt né röng, því að bókin uppfyllir ekki heimildakröfu fræðasamfélagsins en aftur á móti gæti hún aldrei talist til hinna flokkanna sem finna má á bókarkápunni, sem eru skáldsögur og ævisögur samtímamanna. Þessar krossgötur sannleika og lygi eru áhugaverður staður því hann leyfir höfundum að leika sér með bæði formin, reyna að teygja þau, breyta þeim eða kúvenda. Í Skúla fógeta kemur sá leikur helst fram í skreyttum lýsingum sögumanns á umhverfi, tilfinningum, hugsunum persóna. Til að rökstyðja þetta er einfaldast að líta á upphafssíðu bókarinnar þar sem umhverfinu er lýst á eftirfarandi hátt: „Sagan tyllir fyrst niður tá um miðja átjándu öld, sumarið 1761. Örn flýgur yfir Faxaflóa. Fer með þyt yfir hlaðið á Leirá. Hundur geltir svo að köttur vaknar á þaki gegnt kirkjunni og mætir augum stórfyglis“ (bls. 9). Hér kemur greinilega í ljós hvernig togstreitan milli sagnfræðinnar og skáldskaparins birtist í bókinni. Að sama skapi reynist hér erfitt að ákveða hvort kalla eigi þá persónu sem miðlar frásögninni höfund eða sögumann, því slíkt felur í sér ákveðinn dóm um gerð bókarinnar. Hvað sem því líður er lesandinn ávarpaður og honum tilkynnt um stað og stund og hann er boðin velkominn af trausti og yfirvegun þess sem segir sannleikann. Hins vegar er það augljóst að lýsingin sem á eftir kemur á ekkert skylt við það sem kalla mætti sannleika eða fræðimennsku. En með því að blanda saman sannleika og lygi eða skáldskap og sagnfræði er gerð tilraun til að staðsetja lesandann á skáldlegan hátt á miðri 18. öld og sýna honum hvernig Skúli Magnússon sá og skynjaði hlutina. Þessi tilraun höfundar ber tilætlaðan árangur og Þórunni tekst að draga upp nokkuð líflega mynd af Íslandi á 18. öld. En tilraunin er ekki gallalaus og þessir skáldlegu sprettir verða til þess að lesandinn á í mjög óvenjulegu sambandi við frásögnina sjálfa, hann veit að hlutar frásagnarinnar eru óneitanlega sannir en samt sem áður efast hann um sannleiksgildi hennar í hvert seinn sem þessir skáldlegu sprettir birtast. Þessu stílbragði svipar nokkuð til þeirrar frásagnaraðferðar sem Þórunn færði sér í nyt í bókinni Snorri á Húsafelli en sú tilraun fór misjafnlega vel í fólk.
Sögumaðurinn í bókinni er nokkuð óútreiknanlegur og breytir sjónarhorni frásagnarinnar eftir því sem hentar hverju sinni. Oftast er hann alsjáandi og setur sig inn í hug og hjarta persóna en fyrirvaralaust tekur hann upp á því að þrengja sjónarhornið í þeim tilgangi að skapa spennu og óvissu um framvindu sögunnar, þrátt fyrir að bæði hann og lesandinn viti nákvæmlega hvernig sagan endar. Sögumaðurinn býr einnig yfir sögulegri þekkingu og nýtir sér hana óspart til þess að setja atburði úr lífi Skúla, sérstaklega úr æsku hans, í stærra samhengi og tengja þá við embættismannsferil hans. Þetta stílbragð tekst ágætlega en verður á köflum nokkuð þreytandi, sérstaklega þegar hver atburðurinn á eftir öðrum úr æsku Skúla verður einhvers konar fyrirboði um fógetatíð hans seinna á ævinni.
Á heildina litið er bókin sæmilega skrifuð þó að orðfærið í textanum eigi það til að vera nokkuð óþjált. Í bókinni tekst ágætlega að miðla því sjónarhorni sem sett var upp í byrjun, því það er greinilegt að markmiðið með bókinni er að sýna fram á að Skúla hafi alltaf verið ætlað að fá embætti landfógeta og verða forkólfur í bæjarmyndun í Reykjavík. Rétt fyrir miðja bók nær frásögnin nokkuð góðu flugi og á þeim stað er auðvelt að gleyma sér í lestrinum og fylgjast með hvernig lífi Skúla vindur fram. En þar segir einmitt frá nokkuð vafasömum gjörðum Skúla og er það hressandi að sjá breyska hlið mannsins. Að lokum er vert að minnast á lokafla bókarinnar en hann er nokkuð frábrugðin öðrum köflum. Þar stígur sögumaður fram og tekur mun meira pláss en á öðrum stöðum. Með þessu færist frásögnin í lokakaflanum nær því að vera fræðilegs eðlis en skáldlegs. Innihaldið er hins vegar það sem truflar lesandann, í kaflanum má finna margar endurtekningar á því sem hefur áður komið fram og mikið um upptalningar á heimanmundum og uppgjörum úr dánarbúum. Í síðasta kaflanum kemur togstreitan milli sagnfræði og skáldskapar aftur fram, þá sérstaklega í endursögnum á hluta af lífi Skúla á fræðilegri nótum en fyrr í sögunni. Þessi leikur með frásagnaraðferðir er ágæt tilraun en nær ekki tilskildum árangri, enda kemur hann allt of seint fram. Það eina sem hann gerir er að fæla lesandann í burtu á síðustu blaðsíðum bókarinnar.