„Um er að ræða fjölbreytta og skemmtilega sýningu sem nær að draga fram hæfileika Unnar bæði sem flytjanda og listræns stjórnanda,“ segir sviðslistarýnir Víðsjár um aðra seríu listahátíðarinnar Ég býð mig fram.
Þorvaldur Sigurbjörn Helgason skrifar:
Síðastliðinn fimmtudag var önnur sería listahátíðarinnar Ég býð mig fram frumsýnd í Tjarnarbíói. Listrænn stjórnandi, leikstjóri og flytjandi Ég býð mig fram er dansarinn Unnur Elísabet Gunnarsdóttir en fyrsta útgáfa hátíðarinnar var sýnd í listarýminu Mengi í fyrra. Nú snýr Unnur Elísabet aftur með nýja útgáfu af hátíðinni sem inniheldur hvorki meira né minna en fimmtán örverk eftir jafnmarga höfunda. Verkin eru af ólíkum toga og taka meðal annars form gjörninga, dansverka, ljósmyndaseríu og tónlistarmyndbands. Það er vissulega nokkuð umfangsmikið verkefni að taka fyrir fimmtán verk í einni gagnrýni en þó verður hér gerð heiðarleg tilraun til að fjalla örstutt um öll verkin, auk sýningarinnar í heild sinni.
Áður en áhorfendur gengu til sals mættu þeim fjögur verk í kaffihúsi og anddyri Tjarnarbíós. Dansverkið Bessastaðir eftir Unni Elísabetu var staðsett fyrir framan rennihurðir leikhússins þar sem hópur ungra kvendansara, klæddar síðkjólum og með fálkaorður í barminum, sviðsettu partý í forsetabústaðnum og dönsuðu við lagið Rapper’s Delight. Á veggnum fyrir framan kaffihúsið voru tónlistarmyndin Doesn’t really matter eftir Kristinn Arnar Sigurðsson úr fjöllistatvíeykinu Munstri og ljósmyndaserían Vefur eftir Ólöfu Kristínu Helgadóttur. Gjörningurinn Merking eftir Almar S. Atlason var svo staðsettur fyrir framan klósett Tjarnarbíós. Síðastnefndu tvö verkin báru af í þessum hluta hátíðarinnar og raunar einnig þegar litið er til sýningarinnar í heild sinni.
Ákvörðunarvald yfir líkama flytjandans
Gjörningur Almars S. Atlasonar var sérstaklega sterkur, en í honum sat höfundurinn á sviði klæddur í svartan heilgalla frá toppi til táar með tattúvél sér við hlið og bauð áhorfendum að tattúvera ákveðinn part af líkama sínum. Áþreifanleg spenna myndaðist á milli flytjanda og áhorfenda sem urðu óumflýjanlega þátttakendur í gjörningnum hvort sem þeir settu mark sitt á líkama Almars eða fylgdust einungis með. Gjörningurinn minnti undirritaðann á Rhythm 0 eftir Marinu Abramovic, frægt verk úr sögu gjörningalistarinnar, þar sem áhorfendum var einnig gefið ákvörðunarvald yfir líkama flytjandans.
Vefur Ólafar Kristínar Helgadóttur samanstóð af nokkrum ljósmyndum sem héngu á vegg kaffihúss Tjarnarbíós og sýndu nakta líkama ólíkra kvenna á hátt sem bar á sama tíma vott um berskjöldun og valdeflingu. Verkin, sem voru bæði líkamleg og ljóðræn, myndu eflaust sæma sér vel í stærra sýningarrými, til dæmis á safni eða í galleríi.
Áhorfendur fengu u.þ.b. hálftíma til að virða fyrir sér þessi fjögur verk áður en dagskráin í sal Tjarnarbíós hófst. Fyrir hlé voru flutt sex verk á sviðinu, það fyrsta dansverkið & eftir Frank Fannar Pedersen. Þetta var sennilega eina verk kvöldsins sem var hreinræktað dansverk, ef svo má að orði komast, og veitti dansaranum Unni Elísabetu tækifæri til að láta ljós sitt bókstaflega skína þar sem hún skartaði einskonar ljósahönskum sem þjónuðu tvennum tilgangi í verkinu; annarsvegar sem sviðsmynd og hinsvegar sem búningur, og tónuðu einkar vel við tónlist Jóhanns Jóhannssonar.
Íronísk orðræða lífstílsiðnaðirns
Næst á svið var verkið ...eins og fólk sem tjáir sig opinberlega og finnst það ekkert þurfa að ristkoða sig. EINHVER HEFUR RANGT FYRIR SÉR Á INTERNETINU. eftir Urði Hákonardóttur. Verkið tekur form bréfa unnum upp úr skrifum höfundarins á internetinu sem Unnur mun frumlesa fyrir áhorfendur á hverri sýningu. Bréfin samanstanda af ólíkum fullyrðingum sem klipptar eru saman í eina heild og komu undirrituðum helst fyrir sjónir sem stöðuuppfærslur eða brot úr samtölum af Facebook. Samsetning og uppröðun setninganna var nokkuð fyndin og þarna mynduðust ýmsar áhugaverðar hliðstæður en heildin var eins og búast mátti við nokkuð samhengislaus.
Á eftir bréfi Urðar fylgdi verkið Fire works eftir Kitty Von Sometime sem var tónlistarmyndband við samnefnt lag hljómsveitarinnar Gus Gus. Verkið var áferðarfallegt og kom vel út sem tónlistarmyndband en sem dansverk var það fremur innihaldslaust og skildi lítið eftir sig.
Ingvar E. Sigurðsson var höfundur næsta verks sem ber titilinn 1925 og var flutt af Unni og syni höfundarins, Sigurði Ingvarssyni. Þarna var leikið með klisjuna um sveitastelpuna og sveitastrákinn sem verða ástfangin en þurfa svo að takast á við afleiðingar sambands síns. Unnið var með áhugaverðar andstæður í tónlistinni þar sem skottís fyrir harmonikku var blandað saman við raftónlist, en annar sonur Ingvars, Áslákur, sá um tónlistina í verkinu.
Næstsíðasta verk fyrir hlé var PEPP eftir Álfrúnu Helgu Örnólfsdóttur, galsafullt verk þar sem Unnur kom fram í hlutverki eins konar peppara sem endurtók alls kyns frasa sem virtust fengnir uppúr orðræðu lífstíls- og sjálfshjálpariðnaðarins og fékk áhorfendur til að rísa úr sætum og taka þátt í peppinu. Verkið var kómískt en það að varpa reikningsnúmeri upp á skjá í lokin var aðeins of augljós írónía.
Einvíður lokapunktur
Síðasta verkið fyrir hlé var svo verk Ólafs Darra Ólafssonar, „Nobody has more respect for women than me, nobody“. Verkið var einskonar sviðsettur gjörningur þar sem Unnur gekk inn á svið klædd í hvítt frá toppi til táar, kom málningardúk fyrir á gólfinu og hófst handa við að blanda alls konar efnum saman í skál svo úr varð gerviblóð. Niður úr rjáfrinu seig svo plata sem Unnur tók til við að mála á með gerviblóðinu og notaði til þess túrtappa. Í lok verksins sneri hún plötunni við og í ljós kom að á henni var mynd af Donald Trump Bandaríkjaforseta sem Unnur hafði málað eins konar skegg úr blóði á. Sviðsetning verksins var myndræn og vel unnin en lokapunktur þess var heldur einvíður og minnti undirritaðann meira á opnun úr leiklistardeild LHÍ heldur en verk á sviði atvinnuleikhúss.
Dagskráin eftir hlé samanstóð af fimm verkum og fyrst á svið var verkið Human eftir Ilmi Stefánsdóttur. Í verkinu hékk Unnur í fimleikahringjum og sagði sögu af því þegar hún lenti í því óhappi að fá kviðsslit rétt áður en hún átti að flytja danssóló á sviði. Sagan sjálf (sem samkvæmt leikskrá er byggð á persónulegri reynslu Unnar) var nokkuð áhugaverð og það jók á áhrifamátt hennar að sjá Unni streitast á fimleikahringjunum á sama tíma og hún flutti hana.
Annað verk eftir hlé var Framboð (og eftirspurn) eftir Grétu Kristínu Ómarsdóttur. Þetta var þátttökuverk þar sem leitað var til sjálfboðaliða úr áhorfendasal til að flytja verkið. Sjálfboðaliðinn var beðinn um að draga miða úr hatti sem á stóð einhver ákveðin gjörð sem viðkomandi framkvæmdi svo ásamt Unni Elísabetu. Nokkrum öðrum áhorfendum hafði verið rétt umslag þegar þeir sneru aftur í salinn eftir hlé og voru þeir útnefndir dómarar verksins. Þeirra á meðal var undirritaður, sem verður að teljast nokkuð viðeigandi í ljósi þess að hann var þar einnig staddur sem gagnrýnandi. Að lokum var svo enn einn áhorfandinn útnefndur sigurvegari en hvernig að því vali var staðið var þó ekki alveg skýrt.
Hinn vanmetni sandur
Rís draumsins bákn og jafnframt minnkar þú hét næsta verk en höfundur þess er Steinar Júlíusson. Verkið hófst á því að Unnur gekk inn á svið klædd náttsloppi og hljóðmynd byrjaði að spilast þar sem nokkrar pískrandi raddir tóku til við að baktala hana. Verkið leystist svo upp í einskonar sýkadelíska myndgervingu á kvíða og martröðum flytjandans, þar sem eldgos og aðrar hættur birtust á tjaldinu fyrir aftan hana. Verkið var bæði frumlegt og fyndið auk þess sem mynd- og hljóðvinnsla þess var mjög vönduð.
Næstsíðasta verk kvöldsins var Ástand sands eftir Friðgeir Einarsson. Í verkinu flutti Unnur fyrirlestur um sand þar sem hún hvatti áhorfendur til að hugsa meira um þetta vanmetna fyrirbæri sem er undirstaða svo margra hluta í umhverfi okkar. Sviðsetning verksins minnti á kynningu á viðskiptahugmynd eða TED fyrirlestur. Þá var húmorinn mjög í anda þeirra sviðsverka sem Friðgeir Einarsson og leikhópur hans Kriðpleir hafa orðið þekktir fyrir þar sem þeir fjalla um hversdagsleg viðfangsefni og framandgera þau á hátt sem er einhvernveginn bæði kaldhæðinn og einlægur.
Síðasta verk eftir hlé og þar með lokaverk hátíðarinnar var Vængir eftir Helga Björnsson. Verkið var dans- og tónlistarverk sem fjallaði um fugla og var fremur klisjukennt. Lokamyndin þar sem Unnur Elísabet kraup í sviðsljósinu og horfði á fiður falla niður úr rjáfri, á meðan rödd Helga Björns kyrjaði um þrána að geta flogið, fékk undirritaðan hreinlega til að vilja fljúga út úr salnum.
Þolmörk og þrautseigja flytjandans
En að sýningunni í heild sinni. Verkin fimmtán eru jafn ólík að efnistökum og sviðssetningu og höfundarnir sem standa að baki þeim. Það verður að teljast afrek út af fyrir sig að ná að safna saman jafn fjölbreyttum hópi listamanna sem eru allt frá því að vera að stíga sín fyrstu skref yfir í nokkur af þekktustu andlitum þjóðarinnar. Öll þessi ólíku verk og höfundar gera þó að verkum að heildarbragur hátíðarinnar er nokkuð sundurlaus og erfitt er að benda á eitthvað eitt sem tengir verkin fimmtán saman annað en Unni Elísabetu sjálfa. En það er auðvitað visst þema í sjálfu sér, þolmörk og þrautseigja flytjandans sem bregður sér í þúsund líki, þó hefðu höfundar verkanna eflaust grætt á því að hafa eitthvað ákveðið þema til hliðsjónar.
Þá hefði mögulega verið hægt að bæta flæði sýningarinnar með því að hafa færri og lengri verk, en stöðug keyrsla frá einu verki í annað olli því að undirritaður saknaði þess stundum að fá ekki að dvelja örlítið lengur í heimi hvers verks fyrir sig. En þetta eru auðvitað ákvarðanir sem heyra undir listrænan stjórnanda hátíðarinnar og undirritaður vonar svo sannarlega að Unnur Elísabet haldi áfram með þá áhugaverðu tilraun sem Ég býð mig fram er. Um er að ræða fjölbreytta og skemmtilega sýningu sem nær að draga fram hæfileika Unnar bæði sem flytjanda og listræns stjórnanda og stendur fyllilega undir því að vera titluð sem listahátíð.